Pilturinn sem er villtur á Heklu er 15 ára gamall. Að sögn Svans Sævars Lárussonar hjá svæðisstjórn björgunarsveita er hann hræddur, en hann hefur verið á göngu á fjallinu frá því um kl. 12 í dag.
mbl.is hafði eftir tilkynningu frá Landsbjörg fyrr í kvöld að pilturinn hefði orðið viðskila við föður sinn er þeir gengu á fjallið. Hið rétta er að pilturinn lagði á Heklu ásamt móður sinni og systur, en faðir hans beið í bifreið fjölskyldunnar.
Pilturinn gekk nokkuð greiðar en móðir sín og systir og varð viðskila við þær um kl. 14. Þær náðu toppnum, en ekki er vitað hvort hann fór alla leið.
Tíu manns eru við leit á fjallinu eins og stendur en von er á björgunarsveitum úr Árnessýslu, hundasveit úr bænum og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Veður er ágætt á svæðinu, hiti 10 stig, en dökk skýjarhula yfir, sem hefur þokast neðar.
Svanur var tvisvar í símasambandi við piltinn í dag og þá fóru þó nokkur sms þeirra á milli, en pilturinn talaði um að hann væri að verða rafmagnslaus. Hann er rammviltur að sögn Svans og gat ekki gefið lýsingu á umhverfi sínu þannig að gagnaðist við leit.
Í síðustu samskiptum við hann var honum ráðlagt að halda kyrru fyrir.
Uppfært 23:12: Drengurinn er fundinn
Frétt mbl.is: Maður villtur á Heklu