Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, heldur ásamt fleirum ráðstefnu um konur, fíkn, áföll og meðferð, hinn 1. og 2. september á Grand hóteli í Reykjavík. Að mati Rótarinnar þarf að efla kynjamiðaða fíknimeðferð sem tekur mið af því háa hlutfalli kvenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða annarri misnotkun á lífsleiðinni.
„Það er mikill heiður að fá að vinna með þolendum áfalla. Þarna kemur fólk sem horfist í augu við það versta sem hefur gerst í lífi þess. Það er ekkert magnaðra en að kveðja skjólstæðing eftir farsæla úrvinnslu. Ég hef fengið að kynnast þvílíkum hetjum í gegnum tíðina. Það er þess vegna sem ég er sálfræðingur í dag, þetta gefur svo mikið,“ segir Berglind Guðmundsdóttir, dósent í sálfræði við læknadeild HÍ og yfirsálfræðingur Landspítala Háskólasjúkrahúss og hefur starfað sem klínískur sálfræðingur hér á landi í tæp tíu ár. Hún heldur erindi á ráðstefnunni, Konur, fíkn, áföll og meðferð sem haldin verður 1. og 2. september 2015, á Grand hóteli í Reykjavík sem nefnist því skilmerkilega nafni: Hugræn atferlismeðferð við áfallastreituröskun fyrir konur sem þjást af fíknivanda.
Fjöldi rannsókna hefur sýnt að orsakasamhengi er á milli áfalla, einkum áfalla í æsku, og fíknivanda. Að sögn Berglindar þjást u.þ.b. 30-50% þeirra sem greinast með áfengis- og/eða vímuefnavanda einnig af áfallastreituröskun. Berglind segir þetta hlutfall gríðarlega hátt.
Þetta þýðir að þessir einstaklingar eru með tvær raskanir sem tengjast náið. „Til þess að ná árangri í meðferð sýna rannsóknir að best sé að vinna með báðar raskanir á sama tíma. Hugræn atferlismeðferð hefur hentað mjög vel í þessu samhengi og er árangursrík þó svo að aðrar aðferðir hafi einnig reynst vel,“ segir Berglind. En konur sem lenda í áfalli eru tvisvar til þrisvar sinnum líklegri en karlar til að þjást af áfallastreituröskun. Þá verða mun fleiri konur fyrir kynferðisofbeldi en karlar.
Rannsóknir sýna að algengast er að áfallið sem einstaklingar verða fyrir eigi sér stað áður en vímuefnavandi þróast. Þegar talað er um áfallastreituröskun þá er þetta vandi sem þróast í kjölfar tiltekinnar tegundar af atburði. „Það sem er sérstakt við áfallastreituröskun er að sjúkdómurinn þróast þegar eitthvað kemur í veg fyrir eðlilegt bataferli eftir áföll. Áföllin geta verið af ólíkum toga, t.d. líkamlegt, andlegt ofbeldi, slys, ástvinamissir og þar fram eftir götunum. Þú getur bæði upplifað þennan atburð sjálf/ur eða orðið vitni að honum eða fengið vitneskju um einhvern náinn þér sem hefur orðið fyrir svona atburði,“ segir Berglind en bendir á að það sé þó alltaf umdeilt í fræðunum hvernig áfall er skilgreint.
„Það sem er svo dásamlegt við mannskepnuna er að við búum yfir gríðarlegri hæfni til að vinna úr áföllum. Við vitum að meirihluti þeirra sem lenda í alvarlegum áföllum ná að vinna sjálfir úr þeim og þá skiptir stuðningur vina og fjölskyldu miklu máli. Hins vegar er áhættan á að vandi þróist mismikil eftir tegund áfallsins og hvenær atburðurinn gerist á lífsleiðinni. Sumir lenda í flóknum áföllum í barnæsku og hafa ekki þróað með sér bjargráð og eru þá að vinna úr áföllum á fullorðinsaldri. Þeir þurfa gjarnan aðstoð við að sortera og ná fótfestu. En að forðast að vinna úr og tala um erfiða hluti er eitt af einkennum áfallastreituröskunar. Í dag er fólk meðvitaðra um þetta,“ segir Berglind.
Ein kenning um tengsl áfallastreitu og fíknivanda er sú að fíknivandinn sé ein leið til að forðast. Forðast minningar um erfiða atburði, en þeir sem eru með áfallastreituröskun m.a. endurupplifa áföllin sem þeir hafa orðið fyrir og þróa með sér forðunareinkenni. Þau einkenni geta m.a. verið að deyfa sig í ákveðnum aðstæðum.
Á göngudeild geðsviðs Landspítalans, þar sem Berglind starfar er skimað fyrir áföllum hjá öllum þeim sem koma inn. Hún segir að fleiri þurfi að búa yfir þessari þekkingu.
„Forvarnirnar verða líka að grípa þá sem verða fyrir áfalli og veita þeim rétta áfallahjálp sem m.a. felur í sér að fræða fólk um, ef vandi þróast eins og áfallastreita, að þá sé meðferð í boði. Við sem samfélag þurfum að passa upp á að við getum boðið upp á rétta meðferð, alveg eins og við viljum bjóða upp á rétta meðferð við hjartasjúkdómum,“ segir Berglind.
Hún segir kerfið vera miklu upplýstara í dag en það hafi verið þegar hún hafi verið að stíga sín fyrstu skref. Hún segir við séum á réttri braut en myndi þó m.a. alltaf vilja hafa fleiri sálfræðinga sem sinna þessu starfi og að litið væri í auknum mæli til mikilvægis þess að konur og karlar búi við ólíkan vanda þegar kemur að fíknivanda.