„Maður er með öndina í hálsinum um hvernig þetta verður í byrjun september, hvort það verði ein eða tvær vikur án þess að það fari að frjósa og hvort það verði ágætt veður, þá getur ræst úr þessu,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og áhugamaður um berjatínslu, aðspurður um stöðu mála í berjalöndum þetta haustið.
Svo virðist sem enn vanti nokkra góðviðrisdaga svo berin nái að þroskast og verða góð til átu. Minna er um ber en oft áður og enn nokkuð um grænjaxla en þó er til að mynda hægt að finna eitthvað af blá- og krækiberjum í Borgarfirði og víðar.
„Það eru náttúrulega ekki margir dagar eftir af ágústmánuði og venjulega hefur þetta nú verið hábjargræðistíminn í berjamó. En það er nú ekki orðið þannig, útlitið hér [í Borgarfirði - innskot blaðamanns] er þannig að það eru enn mest grænjaxlar sem þurfa að minnsta kosti eina viku af góðu veðri til þess að þau verði þroskuð,“ segir Sveinn Rúnar sem hefur verið við berjatínslu í Borgarfirði í vikunni.
Sveinn Rúnar segir lítið um krækibær og þau sem hann hefur rekist á eru smávaxin. Það sama gildir um aðalbláberin en hægt sé að finna falleg og góð aðalbláber á einstaka lyngi.
„Ég hugsa að þetta eigi kannski við víðar á landinu þar sem veðrið var ekki svo slæmt í júní ogjúlí, eins og á sunnanverðum Vestfjörðum,“ segir hann og bætir við að þetta árið sé líklega helst von á sunna- og vestanverðu landinu.
Sumarið var seint á ferð og víða hefur ekki verið mjög hlýtt í sumar. „Maður er með öndina í hálsinum um hvernig þetta verður í byrjun september, hvort það verði ein eða tvær vikur án þess að það fari að frjósa og hvort það verði ágætt veður, þá getur ræst úr þessu,“ segir Sveinn Rúnar.
Staðan er viðkvæm nú þegar ágústmánuður er að líða undir lok. Lægðir hafa gengið yfir með miklu roki og rigningu og er haustið farið að minna á sig.
„Það passar alveg við dagatalið en maður var að gæla við að sumarið myndi hreinlega færast aðeins til þar sem það byrjaði svo seint,“ segir Sveinn Rúnar. Hann hvetur berjaáhugafólk til þess að fara að leita að berjum og fara ekki út úr bænum án þess að hafa með sér ílát.