Fluginu seinkað fyrirvaralaust

Flugvél Primera Air. Mynd úr safni.
Flugvél Primera Air. Mynd úr safni.

Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, segir farir sínar ekki sléttar af heimferðinni frá Tenerife, sem lauk um klukkan 18:00 í kvöld eftir um 26 tíma ferðalag. Vélin sem hann kom með átti upphaflega að lenda um klukkan 20:00 í gærkvöldi á Keflavíkurflugvelli. Röð mistaka varð þess valdandi að flugið varð jafnlangt og raun ber vitni.

„Það var einhver seinkun því fólk var seint í vélina eins og gengur. Þegar flugstjórinn er kominn með tölur um hvað vélin er þung, flugplanið, þá tilkynnir hann að hann sé búinn að ákveða að millilenda. Fyrst var okkur sagt að það yrði í Glasgow í Skotlandi, en við endum í Shannon á Írlandi,“ segir Bergur Þorri. Flugið sem átti að taka fimm klukkutíma endaði á að taka tæpa 26 klukkutíma.

Þegar ljóst er hvar verði millilent þarf að ganga frá pappírsvinnu áður en vélin fer í loftið. „Flugstjórinn sagði við okkur þegar við vorum lent og biðum eftir aðstoð flugvallarstarfsfólks að við þyrftum að fá um það bil tvö tonn af eldsneyti - tvö þúsund lítra.“

Bergur segir að áhöfnin og flugstjórinn hafi haft tímann sem tekur að fljúga til Íslands og um það bil 90 mínútur til viðbótar. Að öðrum kosti hafi áhöfn vélarinnar unnið of lengi og þurfi lögboðna hvíld.

Áhöfnin brann inni á tíma

„Það fara 40 mínútur í pappírsvinnuna. Þá er eftir kannski klukkutími. Þegar við lendum í Shannon gengur allt á afturfótunum. Það tekur langan tíma að koma vélinni á sinn stað, langan tíma að dæla á hana eldsneyti og í einhverju samskiptaleysi hangir stiginn utan á vélinni einhvern tíma í viðbót. Þegar það gerist lokast vaktaglugginn. Þá er hann kominn upp í 13 tíma og má ekki fljúga lengur,“ segir Bergur.

Hann segir að við það hefjist mikil reikistefna um hvort ný áhöfn komi í stað þeirrar fyrri eða hvort flogið verið til Billund þar sem önnur áhöfn taki við, með tilheyrandi misvísandi upplýsingum að sögn Bergs Þorra.

„Niðurstaðan varð, eftir rúmlega tveggja tíma japl, jaml og fuður, að koma öllum fyrir á hóteli. Hópurinn dreifðist mest megnis á þrjú hótel, en eiginkonan mín og ég, ásamt starfsmanni Úrvals Útsýnar, sem var að ferðast á eigin vegum, fórum á fjórða hótelið.“ Bergur og kona hans voru að koma heim úr vikulangri brúðkaupsferð sem fékk þennan heldur súra endi, en Úrval Útsýn skipulagði ferðina.

Fengu tíu evrur til að kaupa ellefu evru hamborgara

„Við fórum því frá Shannon yfir til bæjar sem heitir Limerick og vorum í sjálfu sér í mjög góðu yfirlæti.“ Hann segir hvern farþega hafa fengið 10 evrur til að kaupa mat, sem hafi engan veginn dugað, því hamborgari á hótelinu hafi til að mynda kostað ellefu evrur.

Þegar á hótelið í Limerick er komið voru þau búin að vera á ferðinni í ellefu klukkutíma. „Við fáum þær upplýsingar á flugvellinum áður en við förum á hótelið að við munum fara aftur í loftið klukkan 14:00 að staðartíma og tókum því bara. En - þegar menn fara að skoða þetta nánar, vaktataíma áhafnarinnar, þá mátti það vera öllum ljóst að það myndi aldrei ganga upp einfaldlega vegna þess að hvíldinni sem áhöfnin átti að fá var engan veginn lokið klukkan 14:00.“

„Enginn landgangur, ekki neitt“

Þegar búið var að innrita allan hópinn á flugvellinum í Shannon og hálftími er í áætlaða brottför er enginn við vélina. „Enginn landgangur, ekki neitt. Þá fara að renna á menn tvær grímur,“ segir Bergur. „Skömmu seinna breytist flugtíminn úr því að vera 14:00 yfir í að vera 16:30. Þá kemur engin skýring og ég vil spyrja Ásgeir Vilhjálmsson hvers vegna í veröldinni hann útskýri ekki þennan mismun,“ segir Bergur Þorri. „Þegar fólk er dregið á asnaeyrunum, þá fýkur í fólk. Það voru allir tilbúnir að sýna þessu skilning í gærkvöldi. En þegar það bætist við svona klukkutími eftir klukkutíma, þá fýkur í fólk.“

Ekki náðist í forsvarsmenn Primera Air við vinnslu fréttarinnar.

Í frétt á vef RÚV segir Ásgeir hins vegar að fyrirtækið harmi mistökin og þann skort á upplýsingum sem Bergur Þorri bendir á. Veðurskilyrði á Akureyri og Egilsstöðum, sem voru að hans sögn varaflugvellir Primera Air í þassu flugi, hafi verið óhagstæð, en alltaf þurfi að vera tveir varaflugvellir til staðar.

Allt hafi þetta svo strandað á því að áhöfnin rann út á hvíldartíma, eins og Ásgeir segir í áðurnefndri frétt RÚV, og því hafi þurft að senda alla farþegana á hótel. Mistök hafi hins vegar átt sér stað þegar fólkið var ræst út um morguninn, og segist Ásgeir vera búinn að kalla eftir skýringum á þeim mistökum.

Súr endir á yndislegri brúðkaupsferð

„Við hjónin vorum búin að vera í yndislegri brúðkaupsferð í góðu yfirlæti, en þetta setur dálítið strik í reikninginn,“ segir Bergur Þorri. Hann bendir á að hann sé með mænuskaða, sem geti haft alvarlegar afleiðingar við þessar aðstæður, auk þess sem eiginkona hans er með ónýta mjaðmaliði.

„Við vorum hringjandi í allan morgun til að reyna að finna þær heilbrigðisvörur sem ég þarf frá degi til dags. Ég var til dæmis orðinn uppiskroppa með heilbrigðisvörur til að geta farið á salernið. Ef það hefði komið ein seinkun í viðbót hættir kerfið að fúnkera hjá mér og ég fæ þvag upp í nýrun og allan pakkann,“ segir Bergur Þorri.

„Þetta er ekkert grín,“ segir Bergur Þorri og beinir því til Ásgeirs hjá Primera Air að loka ekki svona máli „eins og þú leggur frá þér blað dagsins“. Bergur segist hafa gert allt sem í sínu valdi stóð til að allt færi ekki á versta veg hjá sér, og segir að allir hafi verið boðnir og búnir að gera sitt besta til að aðstoða hann.

„Það kom læknir upp á hótelið, en skilaboðin komast bara ekki alltaf rétt til skila. Það sem hann ætlaði að gera fyrir mig, það bara gekk ekki upp,“ segir Bergur Þorri. „Þetta eru níu punktar sem ég tók saman á Facebook sem ég vildi fá svar við.“

Vegna flugs Primera air 6F104 26/8/2015 frá TRS til KEF: Upphafleg brottför 15:501. Einhver Farþega of seinir 2.Brottf...

Posted by Bergur Þorri Benjamínsson on Thursday, August 27, 2015

Hann segist hafa heyrt á fólkinu í kringum sig að fólk ætlaði að láta þetta mál fara alla leið til þar til bærra aðila. „Hvort sem það væri Samgöngustofa eða Neytendastofa eða eitthvað annað. „Þótt menn hafi fengið máltíð daginn eftir, eða varla máltíð heldur tíu evrur þegar hamborgarinn kostaði 11, þá eru ákveðin réttindi sem gilda í þessum málum.“

Ætla að kanna rétt sinn

Hann segir farþegana ætla að hópa sig saman og í framhaldinu af því skoða rétt sinn í kjölfarið á þessu. „Mér finnst langeðlilegast að flugfélagið legði öll spilin á borðið í tímalínu þannig að maður geti sett saman af hverju eitt og annað gerist og á hvaða tíma og hvers vegna. Ég veit að þeir reyndu að fá áhöfn og reyndu að flýta þessu, en þegar þú ert búinn að gera ein mistök þá er svo ótrúlega vont að gera fólki skráveifu ofan á það,“ segir Bergur.

Þegar allt er tekið saman segir Bergur að flugið hafi tekið um 26 tíma, því til stóð að fara í loftið 14:50 að íslenskum tíma, en vélin lenti um klukkan 18:00 á Keflavíkurflugvelli.

Bergur Þorri og Helga Magnúsdóttir, eiginkona hans.
Bergur Þorri og Helga Magnúsdóttir, eiginkona hans.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert