Gagnrýnir skipulagsmál í Reykjavík

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Golli

Það er sláandi að sjá þróun skipulagsmála og framkvæmda í miðborg Reykjavíkur þessa dagana, skrifar forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á vef sinn í dag. „Líklega hefur gamli bærinn í Reykjavík ekki staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og nú frá því fyrir deiluna um Bernhöftstorfuna fyrir hátt í hálfri öld.“

Hann segir að Iðnaðarbankahúsið við Lækjargötu hefði sómt sér ágætlega sem skrifstofubygging við Ármúla en húsið gerir lítið til að styrkja heildarmynd gamla miðbæjarins, skrifar Sigmundur Davíð.

„Iðnaðarbankahúsið við Lækjargötu hefur í hugum margra verið nokkurs konar tákn um hugarfarið sem ríkti í skipulagsmálum hér á landi og víðar á fyrstu áratugunum eftir seinni heimsstyrjöld. Á því tímabili skorti ekki aðeins virðingu fyrir sögulegri byggð og sígildum arkitektúr heldur mætti slík byggð oft hreinum fjandskap og niðurlægingu. Svo kölluð fagurfræði, árþúsundagömul fræði í byggingarlist, varð bannorð og allt sem var lítið og gamalt átti að víkja fyrir hinu nýja og stóra.

Iðnaðarbankahúsið hefði hentað ágætlega sem skrifstofubygging við Ármúla en húsið gerir lítið til að styrkja heildarmynd gamla miðbæjarins. Um áratuga skeið höfðu margir velt því fyrir sér hvort ekki mætti gera eitthvað í málinu, það væri mikið til þess vinnandi að laga horn Lækjargötu og Vonarstrætis, hornið sem blasir við þegar fólk nálgast Kvosina frá Tjörninni,“ segir í pistli forsætisráðherra um skipulagsmál í Reykjavík.

Hann segir að þeir sem láti hús sín drabbast niður og eyðileggjast geti vænst þess að fá leyfi til að rífa þau og byggja stærri hús í staðinn.

„Allt það versta við skipulagsnálgun eftirstríðsáranna skýtun nú upp kollinum á ný. Eitt af því er sá neikvæði hvati sem skipulagið og framkvæmd þess fela í sér. Skilaboðin eru þessi: Eigendur gamalla húsa sem fjárfesta í húsunum sínum og gera þau fallega upp með ærnum tilkostnaði, fá ekkert fyrir það. En eigendur húsa sem láta þau drabbast niður og eyðileggjast geta vænst þess að fá leyfi til að rífa þau og byggja ný og stærri hús í staðinn. Því stærra sem húsið er, og því ódýrara, þeim mun meiri verður hagnaðurinn. Þess vegna eru kríaðir út eins margir fermetrar og mögulegt er og þar sem fæst leyfi fyrir nýbyggingum er iðulega öll lóðin grafin út og stundum jafnvel grafið undan garði nágrannans (eins og dæmi eru um). Svo er byggt alveg að lóðarmörkunum.

Afleiðingin er sú að sá sem fjárfesti í að fegra húsið sitt ber ekki aðeins kostnaðinn á meðan nágranninn hagnast á að rífa sitt hús, hann lendir auk þess í að umhverfisgæði hans eru skert og verðmæti eignarinnar rýrnar. Honum er með öðrum orðum refsað. Þetta er ákaflega hættulegt hvatakerfi sem hefur leikið margar borgir grátt og setur mark sitt á miðborg Reykjavíkur þessa dagana,“ skrifar forsætisráðherra.

Hann segir að við getum ekki keppt við Dubai eða Shanghai eða bara Hannover og Lyon, eða hvaða meðalstóra borg sem er, í því að byggja hús samkvæmt nýjustu tísku úr gleri og stáli. „Sérstaða okkar liggur í hinu sögulega og oftar en ekki smáa. Lítil hús geta verið merkilegri en þau stóru einmitt vegna þess að þau eru lítil.“

Pistill Sigmundar Davíðs í heild

Iðnaðarbankahúsið hefði hentað ágætlega sem skrifstofubygging við Ármúla en húsið …
Iðnaðarbankahúsið hefði hentað ágætlega sem skrifstofubygging við Ármúla en húsið gerir lítið til að styrkja heildarmynd gamla miðbæjarins. mbl.is/Golli
Hústökuhús á Vitastíg
Hústökuhús á Vitastíg mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Bernhöftstorfan í Reykjavík
Bernhöftstorfan í Reykjavík Morgunblaðið/Þorkell
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert