Hjólastígur á Seltjarnarnesi löngu tímabær

Enginn sérstakur hjólastígur er á Seltjarnarnesi. Bætt verður úr því.
Enginn sérstakur hjólastígur er á Seltjarnarnesi. Bætt verður úr því. Ómar Óskarsson

Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir við hjólastíg í kringum Seltjarnarnes hefjist á næstunni. Mikil umferð hjólandi og gangandi manna er um nesið og hefur skapast umræða um óöryggi sem því fylgir að ekki sé sérstakur hjólastígur til staðar.

„Við erum búin að láta hanna og kostnaðargreina tvöföldun á hjólastíg við bæjarmörkin á Norðurströnd við Eiðistorg, allt út að Snoppu, áfram yfir rifið meðfram Seltjörninni, yfir að golfvellinum og svo áfram Suðurströndina alveg út að Nesvegi,“ segir Bjarni Torfi Álfþórsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness og formaður skipulagsnefndar í samtali við mbl.is. Aðspurður hvort að hringurinn í kringum Seltjarnarnes sé ekki vinsæll meðal hjólareiða- og göngufólks svarar Bjarni því játandi. „Þetta er mjög vinsæll hringur, þetta er bara „Hringurinn“ með stóru H-i,“ segir Bjarni og hlær.

Hann segir að lagning hjólastígsins sé bæði stórt og dýrt verkefni. Framkvæmdin er ekki flókin en tekur hinsvegar tíma. „Við vonumst til þess að geta gert þetta í þremur áföngum. Fyrsti áfangi yrði þá frá Eiðistorgi og út að Gróttu og annar frá Gróttu og að golfvellinum. Vonandi getum við byrjað fljótlega í haust.“

Ekki hægt að stjórna hraðanum

Umræða um hjólreiðar á nesinu hafa myndast til dæmis á Facebook síðu íbúa Seltjarnarness. Þar voru hjólreiðamenn m.a. gagnrýndir fyrir að hjóla of hratt fram úr göngufólki án þess að nota bjöllu. Bjarni viðurkennir að hjólastígurinn sé löngu tímabær.

„Á vordögum var fenginn landslagsarkitekt til þess að hanna stíginn og gera kostnaðaráætlun. Við erum alveg á tánum í þessu þó við getum viðurkennt að við hefðum viljað vera komin lengra. Það hefur átt sér stað algjör sprenging í hjólreiðum. Það er alveg feikimikil umferð þarna af gangandi og hjólandi fólki sem þurfa að eiga samleið á þessum þrönga stíg og það segir sig sjálft að það gengur illa upp,“ segir Bjarni og bætir við að lítið sé hægt að gera til þess að fá ákveðna hjólamenn til þess að minnka hraðann og nota bjöllu. „Það er lagt upp með því að fólk noti bjölluna. Menn vilja auðvitað vera góðir fulltrúar hjólandi manna en við getum ekki stjórnað hraðanum. Ég veit ekki hvað hægt er að gera með það nema að höfða til samvisku hvers og eins,“ segir hann.

Mun standa sína plikt

Bjarni segir að straumur útivistarfólks að svæðum á Seltjarnarnesi eins og Gróttu sé mikill, bæði sumar og vetur. „Það er eiginlega endalaus straumur að Gróttu til dæmis. Á sumrin kemur fólk til að sjá sólsetrið en svo kemur sami fjöldi á veturna að sjá norðurljósin.“ Bjarni segir það augljóst að þörf sé á hjólastígum á nesinu.

„Þörfin er mjög knýjandi og við vitum það alveg. Við erum fullkomlega meðvituð um umræðuna, ég hef bæði fylgst með á Facebook og svo er ég sjálfur í þessu hjólaumhverfi og þekki þetta alveg. Í umræðunni hefur aðeins verið að skjóta á mig og ég ætla að standa mína plikt.“

Bjarni Torfi Álfþórsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness og formaður skipulagsnefndar.
Bjarni Torfi Álfþórsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness og formaður skipulagsnefndar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert