Geir Ómarsson, verkfræðingur hjá prentsmiðjunni Odda, tryggði sér um helgina þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í heilum járnkarli sem fer fram í Havaí í Bandaríkjunum í október. Geir gerði sér lítið fyrir og hafnaði í fimmta sæti í sínum aldursflokki og í tuttugasta og fimmta sæti af 2.762 þátttakendum. Hann prófaði fyrst þríþraut fyrir fimm árum og þá var ekki aftur snúið.
Geir var níu klukkustundir, þrettán mínútur og fimmtíu og níu sekúndur að ljúka þrautinni. Hann synti 3,8 kílómetra í sjónum við Amager, hjólaði 180 kílómetra um Sjáland og hljóp heilt maraþon á götum Kaupmannahafnar. Tími Geirs er þriðji besti tími íslensks karlmanns í heilum járnkarli og þá hefur enginn íslenskur karlmaður hlaupið á jafngóðum tíma í maraþoni í heilum járnkarli.
Til að byrja með tók Geir tók þátt í styttri vegalengdum en þegar leið á prófaði hann hálfan járnkarl og því næst heilan. „Maður þarf ekki að eiga flottustu græjurnar til að geta tekið þátt, til að byrja með keppti ég til dæmis á fjallahjóli,“ segir Geir í samtali við mbl.is og hvetur alla til prófa þríþraut.
Tæplega sex vikur eru í heimsmeistaramótið og því ekki mikill tími til stefnu. „Nei, það er ekki mjög langt í það. Það þarf að jafna sig eftir svona langa keppni og byrja síðan að æfa aftur,“ segir Geir. Hann mun hvíla lúin bein í þessari viku og hefja æfingar að nýju í næstu viku.
„Það er ekki mikið sem maður getur gert á svona stuttum tíma, ég er kannski ekki að fara að fara að taka stór stökk í æfingum. Maður er að halda sér við, passa að meiða sig ekki og verða helst ekki veikur.“
Aðspurður segir Geir að landlagið á Sjálandi hafi verið örlítið hæðóttara en hann átti von á en þó ekkert miðað við brekkurnar á Íslandi. Hann segist vera slakastur í sundinu en sterkastur í hlaupinu. „Mín sterkasta grein er hlaupið sem kemur síðast. Það er alltaf erfiðast að hlaupa, þá ert þú búinn að synda og hjóla 180 kílómetra og átt síðan að fara að hlaupa eitt maraþon í lokin. Þó að það sé mín sterkasta hlið er það erfiðasti hlutinn af þessu,“ segir Geir.
Hlaupnir voru fjórir hringir í Kaupmannahöfn. Fjölmargir lögðu leið sína að hlaupaleiðinni og hvöttu þátttakendur áfram. Fjölskylda Geir og vinir studdu þétt við bakið á honum og segir hann ómetanlegt að hafa fengið góðan stuðning.
„Höfuðuð skiptir rosalega miklu máli í þessu. Maður reynir allan tímann að vera jákvæður, hugsa eitthvað jákvætt og hugsa fram í tímann, hvað er næst. Hvað ætla ég að fá mér á næstu drykkjarstöð, hvenær hitti ég fjölskylduna næst. Það er ómissandi að hafa góðan stuðning,“ segir Geir. Hann var til að mynda búinn að ákveða að fá sér kók þegar hann hafði lokið við þrjátíu kílómetra. „Ég var búinn að hlakka mikið til þess, það hvatti mig áfram.“