Innanríkisráðuneytið hafnar því að afhenda greinargerð sem Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, vann fyrir það um eðli sóknargjalda. Ráðuneytið telur almenning ekki eiga rétt á aðgangi að henni á grundvelli upplýsingalaga þar sem hún sé gagn í stefnumótun og samráði um sóknargjöld.
Félagið Vantrú óskaði eftir greinargerðinni í febrúar en var hafnað með bréfi frá ráðuneytinu 14. júlí. Þar er greinargerðin sögð gagn sem tekið hafi verið saman fyrir ráðherrafundi vegna stefnumótunar og samráðs sem nú fari fram um sóknargjöld. Mbl.is óskaði í kjölfarið eftir að fá greinargerðina en var hafnað af ráðuneytinu á sömu forsendum.
Að sögn Jóhannesar Tómassonar, upplýsingafulltrúar innanríkisráðuneytisins, var talið rétt að bíða með að birta greinargerðina á meðan samráð stjórnvalda og þjóðkirkjunnar um sóknargjöld fari fram. Vantrú kærði höfnun ráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Jóhannes segir að ef nefndin úrskurði að afhenda þurfi gögnin þá hljóti ráðuneytið að gera það.
Deilt hefur verið um eðli sóknargjalda sem greidd hafa verið úr ríkissjóði til trú- og lífsskoðunarfélaga frá árinu 1987. Þjóðkirkjan heldur því fram að þau séu félagsgjöld sem ríkið sjái um að innheimta samhliða tekjuskatti. Gagnrýnendur sóknargjalda benda á gjöldin séu beint framlag ríkisins til kirkjunnar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga enda sé skattprósenta þeirra sem standa utan slíkra félaga sú sama þeirra sem tilheyra þeim.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, vildi ekki taka beina afstöðu til þess hvernig bæri að líta á sóknargjöld fyrr en hún hefði „fastara land undir fótum“ þegar mbl.is ræddi við hana í janúar.
Fulltrúar Vantrúar íhuga nú að leita til dómstól til að fá ofgreiddan tekjuskatt endurgreiddan verði sá skilningur fulltrúa þjóðkirkjunnar að sóknargjöld séu félagsgjöld staðfestur af stjórnvöldum.
Fyrri fréttir mbl.is: