Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, segir að vinnubrögð og niðurstaða gerðardóms um launahækkanir hjúkrunarfræðinga og BHM vekji furðu. Þorsteinn segir að gerðardómur hafi kastað mjög til hendinni við sína vinnu og að grundvallaratriði, eins og að leita staðfestingar á kostnaði við samninga á almennum vinnumarkaði, hafi verið vanrækt.
„Niðurstaða gerðardóms vekur furðu og það vekur furðu hversu óvönduð vinnubrögð gerðardómur hefur haft við vinnslu úrskurðarins. Gerðardómur hafði ekkert samráð né leitaði neinna staðfestinga hjá okkur né Alþýðusambandinu um þá kostnaðarútreikninga sem lágu að baki kjarasamningum almenna vinnumarkaðarins,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir að gerðardómur hafi byggt mat sitt á launahækkunum á almennum vinnumarkaði á kynningarbæklingi frá Eflingu þar sem sérstaklega var verið að kynna hlutfallslegar launahækkanir tekjulægstu stétta.
„Gerðardómur gengur út frá því að hækkanir á almennum vinnumarkaði hafi verið 24% á meðan kostnaðarmat samningsaðila lá á bilinu 18-19%. Þá er ekki tekið tillit til þess að um var að ræða samninga sem snerust um að hækka lægstu launin sérstaklega. Sambærilegir tekjuhópar og gerðardómur var að úrskurða um, fengu hækkanir á bilinu 15-17%,“ segir Þorsteinn og bætir við:
„Niðurstaða gerðardóms er einfaldlega kolröng hvað varðar forsendur um það sem samið var um á almennum markaði. Það lágu fyrir mjög ítarlegar greiningar af hálfu beggja samningsaðila sem að báru í öllum meginatriðum saman um samningskostnað. Það hefði verið sjálfsagt mál að fara yfir það með gerðardómi svo það lægju réttar forsendur fyrir niðurstöðu hans. Það kom mjög á óvart að það hefði ekki verið gert.“
Þorsteinn segir að gerðardómi hafi verið gert að horfa til þriggja meginsjónarmiða við úrskurð sinn; launaþróun sambærilegra hópa, kjarasamninga sem gerðir voru eftir 1. maí og að úrskurðurinn verði ekki til þess fallinn að raska efnahagslegum stöðugleika.
Þá hafi dómurinn skautað framhjá launaþróun sambærilegra hópa í úrskurði sínum, hann hafi ekki leitað staðfestinga á samningskostnaði kjarasamninga sem gerðir voru eftir 1. maí og það veki furðu að gerðardómur meti það svo að áhrif úrskurðarins á efnahagslegan stöðugleika verði engin.
Mat gerðardómur hafi verið að einu áhrifin á efnahagslegan stöðugleika væru ef niðurstaða hans yrði umfram það sem samið hafi verið um á almennum vinnumarkað. Þorsteinn bendir á að þar sem að gerðardómur gengur út frá röngum forsendum um launahækkanir á almennum vinnumarkaði hljóti niðurstaðan að hafa í för með sér launahækkanir umfram aðra samninga sem getur þar með haft töluverð áhrif á efnahagslegan stöðugleika.