Uppákoman í höfuðstöðvum Rauða krossins í Efstaleiti í dag þegar skjólstæðingur stofnunarinnar hellti yfir sig eldfimum vökva vekur upp minningar um keimlíkan atburð í maí árið 2011. Þá hellti íranskur hælisleitandi yfir sig bensíni og hótaði að kveikja í sér.
Samkvæmt heimildum mbl.is er maðurinn sem lögreglan yfirbugaði í húsnæði Rauða krossins í dag einnig Írani. Hann hafi dvalið á landinu í um hálft ár. Upplýsingafulltrúi Rauða krossins hefur sagt að hann sé skjólstæðingur hjálparstofnunarinnar.
Það var að morgni dags 6. maí árið 2011 sem Mehdi Kavyanpoor, 53 ára gamall íranskur hælisleitandi réðist inn á skrifstofur Rauða krossins með tvo bensínbrúsa og hellti innihaldi þeirra yfir sig. Hótaði hann að kveikja í sér með tveimur kveikjurum. Á þriðja tug lögreglu-, slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna tóku þátt í aðgerðum á vettvangi.
Bensín fór á starfsmenn Rauða krossins sem reyndu að fá Kavyanpoor ofan af áætlun sinni og sagði yfirmaður aðgerða lögreglu á staðnum að mikil hætta hafi myndast þar sem bensínpollur hafði myndast á gólfinu og mettun bensínsins orðin mikil.
Fulltrúar Rauða krossins sögðu þó að Kavyanpoor hefði lagt hart að starfsmönnum stofnunarinnar að halda sig fjarri honum. Það hafi greinilega ekki vakað fyrir honum að skaða aðra, hvað sem hefði gerst ef hann hefði borið eld að fötum sínum.
Sprautað var á Kavyanpoor úr duftslökkvitæki til að koma í veg fyrir að hann næði að kveikja í sér, en hann var þá á annarri hæð hússins. Hann var svo handtekinn og úrskurðaður í heilbrigðisvistun í kjölfarið. Hann var ekki ákærður vegna atviksins.
Kavyanpoor kom til landsins í febrúar árið 2005 og óskaði eftir hæli og dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Útlendingastofnun synjaði þeirri ósk árið 2007 og dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfesti þá niðurstöðu í október 2008. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðunina í júlí 2009 og Hæstiréttur í október 2010.
Með hótuninni um að kveikja í sér vildi Kavyanpoor mótmæla hversu langan tíma meðferð umsóknar hans um hæli tæki. Helga Vala Helgadóttur, lögmaður hans, sagði að hún hefði látið Rauða krossinn og lögregluna vita af því áður en atvikið átti sér stað að andlegt ástand hans væri afar slæmt og að hann gæti gripið til örþrifaráða. Gagnrýndi hún harðlega hversu hægt hefði gengið að fara yfir umsókn hans um dvalarleyfi.
Mál Kavyanpoor fékk þó farsælan endi þar sem hann fékk dvalarleyfi af mannúðarástæðum og síðar íslenskan ríkisborgararétt.
Fyrri fréttir mbl.is: