Stefnt er að því að viðræður á milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins um mögulegar tollalækkanir sambandsins fyrir íslenskar sjávarafurðir hefjist 8. september að sögn Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.
Ríkisstjórnin óskaði eftir viðræðunum við Evrópusambandið í kjölfar þess að Rússar ákváðu að loka á innflutning á íslenskum sjávarafurðum vegna stuðnings Íslands við refsiaðgerðir Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og fleiri vestrænna ríkja gegn Rússlandi vegna innlimunar Rússa á Krímsskaga og afskipti þeirra af átökum aðskilnaðarsinnar og úkraínska hersins í austurhluta Úkraínu.
Spurður um stöðuna í málinu að öðru leyti segir Gunnar Bragi að unnið sé að málinu á öllum vígstöðvum. Bæði hvað varðar samskipti við rússnesk stjórnvöld sem og við að leita mögulegra nýrra markaða fyrir þær sjávarafurðir sem ekki sé lengur hægt að selja til Rússlands.