Fjármagnshöft geta verið gagnlegt tæki og skiluðu árangri í tilfelli Íslands. Það er sá lærdómur sem Grikkir geta dregið af reynslu Íslendinga af fjármagnshöftum að sögn Más Guðmundssonar, sem ræddi við Bloomberg á árlegum fundi seðlabankastjóra í Jackson Hole í Wyoming.
Aðspurður sagði Már það undir Grikkjum komið hvaða þeir teldu sig geta lært af Íslendingum.
„Það er verulegur munur þarna á milli af því að í Grikklandi er um að ræða höft á úttektir innlendra aðila en í okkar tilfelli var um að ræða umfangsmikið gjaldþrot einkarekinna banka með erlenda lánadrottna sem höndluðu þau viðskipti sem flæddu inn í landið. Þannig að við áttum við að etja snjóhengju erlendra krafa á íslenskan einkarekstur sem nam helmingi þjóðarframleiðslunnar. Þannig að það er munur þarna á milli, en það sem ég tel að þeir geti e.t.v. lært af þessu er að þú getur beitt fjármagnshöftum, þú gerir það ekki af léttúð, en þau geta virka og virkuðu í okkar tilfelli,“ segir Már.
Már segir landfræðilega stöðu landsins og smæð þess, auk stuðnings þjóðarinnar við höftin, hafa verið meðal þeirra þátta sem gerðu það að verkum að höftin virkuðu sem skyldi. Íslenska þjóðin hafi haft skilning á því að höftin væru nauðsynleg til að forða hruni gjaldmiðilsins, sem hefði haft hörmuleg áhrif á lífsgæði landsmanna.
Ertu að segja að það hafi hjálpað að landið er eyja, spyr blaðamaðurinn.
„Það hjálpar. Ég held að það yrði mun erfiðara fyrir land á borð við Lúxemburg, sem er samtvinnað Evrópu bæði landfræðilega og fjárhagslega, að gera þetta. Þannig að maður skyldi varast að draga of margar ályktanir af reynslu okkar,“ svarar Már, sem leggur einnig áherslu á mikilvægi stjórnkerfis sem gætir jafnræðis.
Már segir viðhorf manna til fjármagnshafta hafa breyst gríðarlega.
„Ég myndi ekki segja að þau hafi breyst lítillega, ég myndi segja að þau hafi breyst mikið,“ segir hann. „Ég myndi segja að það það ætti ekki að beita þeim af léttúð. Þetta hefur verið afar erfitt og ég hefði mjög gjarnan viljað að við værum ekki í þeirri stöðu að þurfa að koma á fjármagnshöftum. En þetta er eitt þeirra tækja sem í boði er, bæði til að fást við innflæði fjármagns og útflæði fjármagns. Það getur virkað og maður ætti ekki að útiloka það á grundvelli kennisetninga bara af því að það heitir fjármagnshöft.“