Hringbraut heppilegasta staðsetningin

Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH.

Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans, seg­ir í nýj­um pistli að heppi­leg­asta staðsetn­ing­in fyr­ir nýj­an Land­spít­ala er Hring­braut. Hann seg­ir jafn­framt að ekki verði unnt að ráðast í end­ur­nýj­un alls hús­næðis spít­al­ans, en hvorki verður ný geðdeild eða fæðinga­deild í nýja spít­al­an­um. Grens­ás­deild verður held­ur ekki end­ur­nýjuð. 

Á þessu ári er tæp­ur millj­arður áætlaður til verk­fram­kvæmda við sjúkra­hót­el og til fullnaðar­hönn­un­ar meðferðar­kjarn­ans.

„Við end­ur­tekna rýni hef­ur niðurstaðan ávallt verið sú sama - Hring­braut er heppi­leg­asta staðsetn­ing­in. Ræður þar miklu kostnaðarþátt­ur­inn en dýr­ast og raun­ar áhættu­sam­ast er að byggja nýtt sjúkra­hús frá grunni. Bygg­ing­ar­magnið er einnig um­tals­vert minna þar sem unnt er að nýta 56.000 fm eldri bygg­inga við Hring­braut, ná­lægðin við þekk­ing­ar­sam­fé­lagið í Vatns­mýr­inni skipt­ir miklu fyr­ir há­skóla­sjúkra­hús og svo mætti áfram telja,“ skrif­ar Páll í for­stjórap­istli sem birt­ist á vefsíðu spít­al­ans í dag.

Ekki hægt að ráðast í end­ur­nýj­un alls hús­næðis­ins

Í pistl­in­um seg­ir Páll að fram­kvæmd nýs Land­spít­ala sé bæði um­fangs­mik­il og kostnaðar­söm.
 
„Aðstæður í sam­fé­lag­inu ráða því að ekki verður unnt að ráðast í end­ur­nýj­un alls þess hús­næðis sem þó væri ósk­andi. Má þar nefna hús­næði geðsviðs, fæðing­ar­deild og Grens­ás. Eft­ir vand­lega skoðun á sín­um tíma var það niðurstaðan að í al­ger­um for­gangi væri að sam­eina bráðastarf­semi spít­al­ans í nýj­um meðferðar­kjarna við Hring­braut,“ skrif­ar Páll.

Í sam­tali við mbl.is fyrr í mánuðinum gagn­rýndi fæðinga­lækn­ir­inn Ebba Mar­grét Magnús­dótt­ir það harðlega að eng­in ný fæðing­ar­deild yrði í nýja sjúkra­hús­inu. Sagði hún til dæm­is að húsið sem fæðinga­deild­in væri nú til húsa hentaði ekki fæðingaþjón­ustu nú­tím­ans.  Þar að auki sagði Hild­ur Harðardótt­ir, yf­ir­lækn­ir meðgöngu-, fæðing­ar- og fóst­ur­greina­deilda í sam­tali við RÚV það baga­legt að fæðinga­deild­in væri í ann­arri bygg­ingu en önn­ur þjón­usta.

Sam­ein­ing bráðastarf­sem­inn­ar meiri hátt­ar ör­ygg­is­mál

Í pistl­in­um í dag skrif­ar Páll að sam­ein­ing bráðastarf­sem­inn­ar sé meiri hátt­ar ör­ygg­is­mál fyr­ir alla lands­menn, sama hvaða þjón­ustu þeir kunna að þarfn­ast á Land­spít­ala og má ekki bíða. „Sam­hliða upp­bygg­ingu meðferðar- og rann­sókn­ar­kjarna auk húss heil­brigðis­vís­inda­sviðs er það mik­il­vægt verk­efni að tryggja viðun­andi húsa­kost fyr­ir þá mik­il­vægu þjón­ustu sem ekki er gert ráð fyr­ir í meðferðar­kjarn­an­um. Það er sam­eig­in­legt verk­efni okk­ar allra sem ekki þarf að tefja önn­ur áform.“

Í pistl­in­um kem­ur jafn­framt fram að á næstu vik­um og mánuðum fari fram loka­hönn­un meðferðar­kjarn­ans og rýni á fyr­ir­liggj­andi for­hönn­un.

„Að því verki koma hundruð starfs­fólks Land­spít­ala sem best þekk­ir starf­sem­ina og þarf­ir henn­ar. Ný­lega var end­ur­skipað í fjölda rýni­hópa og var þá sér­stök áhersla lögð á að kalla til yngra starfs­fólk með yf­ir­grips­mikla þekk­ingu á starf­sem­inni.“ Þá verður notuð svo­kölluð „Lean“ aðferðarfræði sem mun skila betri og mark­viss­ari nýt­ingu hús­næðis að sögn Páls.

„Þetta er spenn­andi og skemmti­legt verk­efni og ein­stakt tæki­færi til að hanna húsa­kost í kring­um besta verklag og þjón­ustu - í stað þess að við starfs­fólkið þurf­um sí­fellt að laga okk­ur að af­göml­um bútasaumi mis­gam­alla húsa. Það er nokkuð ljóst að það verður ekki oft á starfsæv­inni sem unnt er að hafa svo mik­il áhrif á þróun starfs­um­hverf­is, sem móta mun þjón­ust­una langt inn í framtíðina.“

Pist­il Páls í heild sinni má sjá hér.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert