30 ára grínafmæli: Spaugstofan krufin á RÚV

Spaugstofan snýr aftur á RÚV.
Spaugstofan snýr aftur á RÚV.

Haldið verður upp á þrjátíu ára afmæli hinnar goðsagnakenndu Spaugstofu í Ríkissjónvarpinu í haust. Um er að ræða tíu þætti sem byggðir eru upp á viðtölum við Spaugstofugengið og „fórnarlömb“ þess gegnum tíðina og svo verður einn lokaþáttur, sá ellefti, í anda gömlu þáttanna. Sýningar hefjast í október og er dagskrárgerð í höndum Gísla Marteins Baldurssonar og Eiríks Inga Böðvarssonar.

„Það er mjög gleðilegt að RÚV skuli gera ferli okkar skil með þessum hætti í tilefni af afmælinu, en við byrjuðum einmitt þar fyrir réttum þrjátíu árum,“ segir Karl Ágúst Úlfsson Spaugstofumaður.

Hann segir þættina öðrum þræði munu skoða sögu þessara þriggja áratuga í ljósi Spaugstofunnar en fræðimenn og aðrir áhugamenn um spé munu leggja orð í belg. „Það verður lærdómríkt að fá að heyra skoðanir þessa fólks,“ segir Karl Ágúst, en Spaugstofan mun einnig halda upp á áfangann með því að frumsýna nýja sýningu, Yfir til þín, á Stóra sviði Þjóðleikhússins í lok október.

Spurður hvort áform séu um frekari dagskrárgerð í sjónvarpi í nafni Spaugstofunnar svarar Karl Ágúst neitandi. „Við lítum svo á að þessum kafla í lífi okkar og þjóðarinnar sé lokið. Það þýðir þó ekki að við félagar munum ekki vinna áfram saman, með einum eða öðrum hætti. Þessi samvinna er ávanabindandi.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert