Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ávarpaði í dag gesti Hallgrímskirkju í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags.
Hann minnti á hversu lítið og hrörlegt það þorpið Reykjavík var þegar félagið var stofnað fyrir tveimur öldum.
Í ávarpinu sagði Ólafur Ragnar meðal annars:
„Þorpið varð í fyllingu tímans að blómlegri borg, iðandi vettvangi mannlífs, menningar og lista, fundarstaður leiðtoga heimsins, margfræg vítt um veröldina. En sú sýn var fjarri hinum fámenna hópi; kannski líkust álfheimum hefði einhver reynt að beina hugum þeirra að slíkri þróun“
Hann rifjaði einnig upp hvernig saga menningar Íslands og vegferð Íslendinga frá landnámstíð verði ekki skilin án þekkingar á kristnum fræðum:
„Það gleymist oft í orðræðu okkar tíma, þegar krafist er að kristnum textum sé ýtt til hliðar í skólum landsins og við uppeldi æskunnar, að menning og vegferð Íslendinga frá landnámstíð til þessarar nýju aldar, rösk þúsund ár í sögu þjóðar, verða ekki skilin til hlítar án þekkingar á kristnum fræðum; frásagnir Biblíunnar, sess og þróun kirkjunnar, störf presta í byggðum landsins séu öllum kunn og að verðleikum metin; að viðurkennt sé af heilum huga að hin helga bók og trúarskáldskapur Íslendinga sjálfra eru burðarstoðir í sjálfsvitund þjóðarinnar, í samfelldri sögu okkar og í nýsköpun bókmennta, lista og samfélags á okkar tímum.“
Þá þakkaði hann öllum þeim sem standa að Biblíufélaginu fyrir sín störf í þágu félagsins.