Icelandair býður töskur að gjöf og „frían“ flutning á þeim til landsins úr verslunarferðum í Bandaríkjunum. Kemur þessi auglýsing stuttu eftir að Dóra Sif Ingadóttir, kaupmaður í barnafataversluninni Bíumbíum, gagnrýnir flugfélagið fyrir hraðtilboð sín til rómaðra verslunarborga.
„Þetta er í hnotskurn það sem verslunin stendur frammi fyrir og við höfum verið að benda á. Verslun á fatnaði og skóm hér á landi hefur minnkað um rúmlega 10% á einu ári. Það er vegna þess að fólk verslar í auknum mæli í útlöndum og Icelandair er að höfða til þess,“ segir Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, við mbl.is.
Margrét segist fagna niðurfellingu tolla á fatnaði og skóm sem tekur gildi 1. janúar næstkomandi. Meira þurfi þó að gera til að gera verslun hér á landi samkeppnishæfa við mörg önnur lönd. „Við veltum því fyrir okkur hvort það sé nóg og höfum verið að óska eftir að virðisaukaskattur verði lækkaður niður í 11%. Í Bandaríkjunum er meðal virðisaukaskattur í kringum 7% og það er það samkeppnisumhverfi sem við búum við.“
Hún spyr hvort við viljum ekki hafa það val að geta verslað hér landi í samkeppnishæfu umhverfi. „Við erum í alþjóðlegri samkeppni. Það eru þessar verslunarferðir, það er netverslunin og við viljum líka benda á að ef að verslun heldur áfram að minnka hér þá hefur það áhrif á verð og vöruúrval á Íslandi. Viljum við ekki efla, eða hafa þetta val, að geta líka verslað heima. Þetta verður vítahringur ef fólk er að versla meira í útlöndum þá erum við í erfiðum málum með samkeppnina á verði.“
Margréti þykir umræðan oft ekki sanngjörn þegar verð hér á landi er borið saman við verð erlendis. „Þegar það er gert er oft verið að bera saman mismunandi verslanir. Þegar þú ert að bera saman hágæða verslanir með mikla þjónustu og annað við verslanir úti þar sem engin þjónusta er og fleira. Þú verður að bera saman epli og epli. Við vitum alveg að við eigum á brattann að sækja varðandi vöruverð, út af opinberum gjöldum en stundum er umræðan algjörlega, að okkar mati, kolröng og fer út um víðan völl.“