„Gætum tekið við 1.500-2.000 manns“

Sýrlenskir flóttamenn bíða þess að komast um borð í ferju …
Sýrlenskir flóttamenn bíða þess að komast um borð í ferju til þess að komast til Grikklands. AFP

Rauði krossinn ætti alltaf að vera í stakk búinn til þess að taka á móti flóttamönnum, sama hversu margir þeir verða, að sögn Björns Teitssonar upplýsingafulltrúa Rauða krossins.

„Það eru í sjálfu sér engin takmörk á því hversu marga sjálfboðaliðar gætu aðstoðað, þó sjálfboðaliðum þyrfti mögulega að fjölga. Eins og umræðan er núna og það er ákveðin vitundarvakning í gangi í samfélaginu, býst ég við að þeim eigi eftir að fjölga talsvert. Ég myndi segja að framboðið ætti að vera svipað og eftirspurnin; komi til þess að við tökum við fleiri flóttamönnum, sem ég reyndar vona að við gerum, þá held ég að við munum ekki eiga eftir að lenda í neinum vandræðum með að fá fólk til liðs við okkur sem er tilbúið að hjálpa,“ segir Björn og bendir á að hægt sé að skrá sig sem sjálfboðaliði á vefsíðu Rauða krossins.

Rauði krossinn byggir starfsemi sína á þessum vettvangi á sjálfboðaliðakerfi sem hefur verið við lýði allt frá því árið 1956. Hver flóttamaður sem kemur til landsins fær úthlutað stuðningsfjölskyldum og heimsóknavinum sem hjálpa til við ýmsa hversdagslega hluti eins og að kenna á strætókerfið eða skrifræðið.

„Mér finnst allt í lagi að við tökum Svíþjóð sem viðmiðunarland, þeir tóku á móti rúmlega 30.000 flóttamönnum í fyrra. Værum við að taka á móti einhverjum svipuðum fjölda hlutfallslega, þá gætum við tekið á móti allt að 1.500-2.000 manns,“ segir Björn.

Björn segir Svíþjóð og Þýskaland hafa verið þau ríki sem hafa verið til fyrirmyndar við að taka á móti flóttafólki og tímabært sé að Íslendingar taki það skref sem Svíar og Þjóðverjar hafa gert. „Íslendingar hafa verið svolítið að halda að sér höndum við að taka á móti flóttafólki, ég veit ekki alveg hvers vegna það er. En almennt hefur reynslan verið góð af því flóttafólki sem við höfum tekið við. Alveg frá því við tókum við ungversku fólki árið 1956,“ segir hann og bætir við: 

„Á þessari stundu stöndum við frammi fyrir mesta flóttamannavanda í mannkynssögunni, það hafa ekki verið svona miklir mannflutningar síðan í seinna stríði og við verðum að spyrja okkur hvort við viljum endurtaka reynsluna frá því þá; þegar við gátum boðið gyðinga velkomna hingað en gerðum ekki. Ég efast um að Íslendingar vilji horfast í augu við slíkt, að hafa haft tækifæri til þess að hafa jákvæð áhrif á söguna en henda því frá sér.“

Rauði krossinn sér um að taka á móti flóttamönnum og …
Rauði krossinn sér um að taka á móti flóttamönnum og aðstoða þá. mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka