„Þetta gekk alveg ótrúlega vel, við höfum náttúrulega ekki verið með svona stóran fund og langan áður. Við náðum að taka á mikilvægum málefnum, fengum nýtt framkvæmdaráð og samþykktum magnaðar ályktanir,“ segir Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, um aðalfund flokksins um helgina.
Hún segist ekki vera með nákvæma tölu á því hversu margir sóttu fundinn en segir að á laugardaginn hafi verið svo pakkað í Iðnó að ekki allir hafi komist að. Birgitta hélt ræðu á fundinum sem var vel tekið af flokksfélögum. „Það var rosalega góð stemning. Ég fékk að halda ræðu og það var rífandi stemning eftir hana, ég eiginlega bara fór hjá mér,“ segir Birgitta og bætir við að þetta hafi verið kærkomið tækifæri til þess að hitta nýja félaga, en þeim hefur fjölgað um þúsund á undanförnu ári.
Fyrir fundinn settu Píratar upp vef sem nefndist Betri Aðalfundur sem var ætlaður til þess að gefa félagsmönnum kost á að leggja til nýjar hugmyndir.
„Við settum upp vef sem er í sama viðmóti og Betri Reykjavík, sem hét Betri Aðalfundur og þar buðum við öllum að senda inn, rökræða og kjósa um hugmyndir. Þetta var sett upp þremur dögum fyrir fund og það voru 150 manns sem að skráðu sig inn og tóku þátt, sem á að vera bara mjög gott. Þrjár efstu tillögurnar þar voru settar í ályktunarferli,“ segir Birgitta og bætir við:
„Þar að auki var aukaályktun sem var sett inn í ályktunarferli líka, en það var um að Píratar styðji við tillögur Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um að Íslendingar taki við 500 flóttamönnum. Það þurfti að fá sérstaka heimild til þess að bera hana upp því það stóð bara til að hafa þessar þrjár, en þetta er bara neyðarástand.“
Ályktanirnar fjórar voru samþykktar af fundinum en við það er þeim vísað í kosningakerfi Pírata þar sem hægt er að kjósa um ályktanirnar í sex daga. Auk þess að álykta um flóttamenn sneru hinar ályktanirnar þrjár að nýju stjórnarskránni, lýðræðiseflingu á öllum stjórnsýslustigum og kosningaþátttöku ungs fólks.
Birgitta segir að hún hafi skynjað mjög sterkan samhljóm um að leggja áherslu á að vilji þjóðarinnar þann 20. október 2012 verði virtur og vísar til nýju stjórnarskrárinnar.
Aðspurð að því hvað henni hafi fundist standa upp úr á fundinum svarar hún til: „Mér fannst svona alltumlykjandi á fundinum gríðarlega mikill áhugi og vilji á að koma með raunverulegar lausnir á núverandi kerfi sem við búum við. Lýðræðisvinkillinn, aðgengi almennings að ákvarðanatöku, aukið beint lýðræði og opnari stjórnsýsla eru Pírötum mjög hugleikin, því við erum mjög meðvituð um það að það skiptir ofboðslega miklu máli til þess að þekkja sín borgararéttindi, að þá verður maður að hafa aðgengi að upplýsingum um hvernig þetta virkar allt saman. Það var einmitt ein af þessum flottu ályktunum sem voru samþykktar hjá okkur.“
En hvað tekur svo við, hvað munu Píratar leggja áherslu á, á komandi þingvetri?
„Píratar buðu sig fram fyrir síðustu alþingiskosningar út frá ákveðnum málefnum, við erum náttúrulega bara þrír þingmenn í minnihluta í minnsta flokknum. Í rauntíma erum við það þrátt fyrir skoðanakannanir. Við ætlum bara að einbeita okkur að því sem okkur var falið af kjósendum. Við getum ekki mörgum blómum við okkur bætt, við erum nú þegar, þrátt fyrir að sumir ágætir ritstjórar haldi því fram að við séum letingjar, þá erum við eins og útspítt skinn. Þegar maður er að glíma við svona vinnufíkn og einhver segi manni að maður sér letingi, það er ekki mjög gott fyrir mína vinnufíkn, mér líður alltaf eins og ég geri ekki nóg,“ segir Birgitta.
Hún segir jafnframt að hún muni beita sér á loftslagsráðstefnunni í Frakklandi nú í desember auk þess sem að Píratar muni leggja grunn að stefnu sinni í höfundarréttarmálum eins og lofað var fyrir síðustu kosningar. Ennfremur muni flokkurinn halda úti Pírataskóla þar sem fjallað verði um nýju stjórnarskránna og þá gömlu.
„Ég bara vona að við berum gæfu til þess á Alþingi að finna einhverja samvinnufleti á stóru málunum sem hvíla mjög þungt á þjóðinni og ég er með mjög miklar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu. Til dæmis, þeir sem eru verktakar og veikjast, að þeir þurfi ekki að fara í gegnum svona erfið ferli. Það eru svo margar holur og maður er núna bara að reyna að fylla í holur. Við Píratar höfum meiri áhuga á því að skoða hvernig er hægt að setja fram heildrænar lausnir ef við myndum hætta að vera í bútasaumsteppi, eins og núverandi kerfi er, með alveg rosalega mörgum holum sem fólk fellur í gegnum,“ segir Birgitta.