Ákærður fyrir skattalagabrot

Völundur Snær Völundarson.
Völundur Snær Völundarson. mbl.is/Styrmir Kári

Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært Völund Snæ Völundarson veitingamann fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, en hann er sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslu einkahlutafélags lögmæltum tíma sem og staðgreiðsluskilagrein félagsins. Samtals nemur upphæðin um 17,6 milljónum króna.

Ákæran varðar starfsemi einkahlutafélagsins VH fjárfesting, en Völundur er daglegur stjórnandi og stjórnarmaður félagsins.

Ákæran, sem var gefin út í lok júní, er í tveimur liðum. Í þeim fyrri er hann ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilsins nóvember til desember rekstrarárið 2013. Einnig fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2013. Samtals nemur upphæðin 4,6 milljónum króna. 

Þá er hann ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðsluskilagrein félagsins á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilsins desember 2013 og hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins vegna greiðslutímabilanna ágúst, september, október og desember rekstrarárið 2013. Samtals nam fjárhæðin um 13 milljónum króna. 

Þess er krafist að Völundur verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Málið gegn Völundi verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur nk. fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert