Samfylkingin hyggst á komandi þingvetri setja í forgang hækkun grunnlífeyris í 300 þúsund krónur til samræmis við nýgerða kjarasamninga en þingmenn og varaþingmenn flokksins funduðu á Esjustofu við Mógilsá í dag um verkefni komandi vetrar.
„Flokkurinn leggur áfram áherslu á húsnæðismál, aukið fjármagn til heilbrigðismála og lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og hækkun fæðingarorlofsgreiðsla. Á þessum vetri mun Samfylkingin einnig setja í forgang að koma fyrsta áfanga stjórnarskrárbreytinga í höfn,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu. Er þar ekki síst lögð áhersla á möguleika almennings til þess að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Flokkurinn vill ennfremur taka á húsnæðismálunum og þá einkum þegar kemur að ungu fólki og möguleika þess á að eignast sína fyrstu íbúð.
„Samfylkingin leggur til róttækar breytingar á fyrirkomulagi kosninga. Öllum verði frjálst að kjósa utan kjörfundar og utankjörfundarkjörstöðum verði fjölgað. Settir verði upp færanlegir kjörstaðir sem heimsæki skóla, fjölmenna vinnustaði og aðra fjölfarna staði í aðdraganda kosninga og allir verði hvattir til að kjósa sem fyrst. Þá verði afnumið ákvæði kosningalaga um að aldraðir og aðrir sem ekki komast á kjörstað þurfi uppáskrift annarra til að fá að geta kosið heima, heldur verði það valkostur fyrir þá sem vilja og öllum frjálst,“ segir einnig.
Ennfremur hyggst þingflokkur Samfylkingarinnar styðja tillögu um móttöku að minnsta kosti 500 flóttamanna á næstu árum. „Í framhaldinu leggur Samfylkingin áherslu á að Ísland að auki framlög til alþjóðlegra stofnana á sviði flóttamannaaðstoðar, auki en dragi ekki úr framlögum til þróunaraðstoðar og leiti samstöðu með öðrum Evrópuríkjum um að öll ríkin taki sig saman um alvöru aðgerðir gagnvart þessum fordæmalausa vanda.“