Öllum starfsmönnum sagt upp

Tálknafjörður.
Tálknafjörður. www.mats.is

Sjávarútvegsfyrirtækið Þórsberg ehf. á Tálknafirði hefur tekið ákvörðun um að fresta því að hefja starfsemi eftir sumarleyfi meðan kannaðir verða möguleikar á áframhaldandi rekstri og endurskipulagningu á starfseminni. Öllum starfsmönnum hefur af þeim sökum verið sagt upp störfum með samningsbundnum fyrirvara samkvæmt fréttatilkynningu. Að sögn Guðjóns Indriðasonar framkvæmdastjóra Þórsbergs ehf. er um 26 störf að ræða.

„Ákvörðunin er tekin vegna versnandi rekstrarumhverfis útgerðar og bolfiskvinnslu. Á undanförnum misserum hefur fyrirtækið farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, aukningu hlutafjár frá eigendum, frekari kaup á aflaheimildum og samstarf um sérstakan byggðakvóta í þeim tilgangi að styrkja reksturinn. Rekstrareiningin er ekki nægjanlega stór til þess að laða fram nauðsynlega hagkvæmni í rekstrinum,“ segir ennfremur.

Þórsberg ehf. var stofnað árið 1975. Fyrirtækið er stærsti vinnuveitandi á Tálknafirði og hefur undanfarin ár gert út línubátinn Kóp BA-175 og haldið úti vinnslu á ferskum, frystum og söltuðum fiskafurðum að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert