Þorbergur Ingi Jónsson hafnaði í sextánda sæti í 101 km hlaupi í Frakklandi um helgina. Hann segir að hlaupið hafi verið hrikalega erfitt, aðallega hafi hitinn reynst íslensku hlaupurunum erfiður.
Líkt og fram kemur á hlaupavefnum hlaup.is þá tóku fjölmargir íslenskir ofurhlauparar í Mt. Blanc fjallahlaupunum í Frakklandi um helgina. Mt. Blanc hlaupin eru utanvegafjallahlaup, um er að ræða fimm hlaup sem eru einkar krefjandi en mislöng.
Þorbergur þátt í CCC hlaupinu sem er 101 km og hafnaði í 16. sæti af um 2100 keppendum á tímanum 13:55:04.
Hann segir að þetta hafi verið hrikalega erfitt. „Það var allt, allt of heitt og ég var ekki að ráða nægjanlega vel við hitann,“ segir Þorbergur en stóran hluta tímans var hann að hlaupa í yfir 30 stiga hita í 1600-2500 metra hæð.
Þorbergur segir að þetta hafi verið afar ólíkt þeim aðstæðum sem voru í Laugavegshlaupinu í sumar þegar hann hljóp á nýju brautarmeti, tæpum fjórum klukkustundum. Gamla metið setti hann sjálfur í fyrra þegar hann hljóp á 4:07:47.
Methlaupið átti að vera æfingahlaup
„Ég gat ekkert beitt mér og eftir tuttugu kílómetra var ég illa haldinn vegna hitans og nokkrum kílómetrum síðar fékk ég sólsting vegna hitans,“ segir Þorbergur og bætir við að hann hafi á þessum tímapunkti ekki getað gengið.
„Ég þurfti að leggjast niður og hvíla í korter en þá heyrði ég í læk sem ég náði að komast í og lá í honum í tvær, þrjár mínútur. Ég var við það að hætta en náði að rölta á næstu drykkjarstöð þar sem ég fékk klaka á hausinn og bakið. Ég drakk líka nóg af kóki og ákvað síðan að leggja í hann á ný og harka af mér,“ segir Þorbergur Ingi í samtali við mbl.is.
Að sögn Þorbergs Inga skánaði ástand hans mikið þegar það fór að rökkva og kólna um leið en hann segist ekki hafa undirbúið sig nægjanlega undir að hlaupa í svo miklum hita og um leið í mikilli hæð.
Þorbergur segir að hann hafi hreinlega ekki getað drukkið nægjanlega mikið í hlaupinu en þrátt fyrir álagið þá segir hann að þetta hafi verið góð reynsla og ekki sé spurning um að hann eigi eftir að takast á við lengstu vegalengdina, 170 km, síðar.
„Ég gerði það besta úr þessari stöðu sem ég var kominn í,“ segir Þorbergur og segist ánægður með að hafa klárað hlaupið. Hann eigi mikið inni þrátt fyrir að hlaupið núna hafi verið kvöl og pína.
Maður verður einhvern veginn nýr maður eftir þetta og hlaupið er rosaleg andleg áskorun. Ég á örugglega eftir að hlaupa 170 km hlaupið einhvern tíma en fyrst ætla ég að hlaupa 100 km almennilega og sanna fyrir sjálfum mér að geti þetta,“ segir Þorbergur sem hafði ætlað sér að hlaupa á um 12 tímum.
Þorbergur Ingi er löngu landsþekktur fyrir afrek sín á hlaupabrautinni og hefur smátt og smátt verið að færa sig úr götuhlaupum yfir í utanvegahlaup.
„Ég er nánast eingöngu í utanvegahlaupum núna og hefði í rauninni átt að færa mig yfir í þau miklu fyrr. Þetta hentar mér miklu betur og ég hefði átt að vita það en ég hef verið fastur í götuhlaupunum. En ég verð ekkert yngri þannig að það er ágætt að færa sig yfir í þessi hlaup núna,“ segir Þorbergur Ingi sem er enn úti en er væntanlegur til landsins á morgun.
Samkvæmt upplýsingum á vef hlaupsins tóku tveir aðrir íslenskir hlauparar þátt í 101 km hlaupinu, þau Halldóra Matthíasdóttir Proppé og Gunnar Júlíusson.
Fimm Íslendingar hlupu lengstu vegalengdina, UMTB sem er 170 km löng. Ágúst Kvaran, Birgir Sævarsson, Davíð Vikarson, Elísabet Margeirsdóttir og Stefán Bragi Bjarnason.
Tveir Íslendingar luku TDS hlaupinu sem er 119 km langt. Guðmundur Ólafsson og Sigurður Þórarinsson.