Greiðir ferðakostnaðinn sjálfur

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarstjóri Vestmannaeyja, Elliði Vignisson, verður fulltrúi bæjarins á ráðstefnu sem fram fer í Utah-ríki í Bandaríkjunum dagana 9.-12. september þar sem minnst verður þess að í ár eru 160 ár frá því að fyrstu landnemarnir frá Vestmannaeyjum settust þar að.

Erindi þess efnis frá Elliða var samþykkt á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja 18. ágúst en þar segir að eindregið hafi verið óskað eftir því að Vestmannaeyjar sendu fulltrúa til ráðstefnunnar. Þar kemur ennfremur fram að Elliði hefði í hyggju að greiða eigin ferðakostnað en með erindinu væri aðeins óskað eftir heimild til þess að vera fulltrúi bæjarfélagsins.

Fram kom í afgreiðslu bæjarráðs að heimildin væri fúslega veitt og ennfremur hvatt til þess að tengsl við Vestur-Íslendinga, og þá sérstaklega þá sem ættaðir væru úr Vestmannaeyjum, verði ræktuð af fremsta megni af hálfu bæjarfélagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka