Fylgi Samfylkingarinnar er 9% samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup og hefur ekki verið minna í 17 ár eða frá því í maí 1998, ári fyrir fyrstu þingkosningarnar sem flokkurinn bauð fram í. Þetta kemur fram á fréttavef Ríkisútvarpsins. Sjálfstæðisflokkurinn er með 21,6% fylgi og hefur stuðningur við flokkinn ekki verið minni síðan í nóvember 2008.
Píratar njóta sem fyrr mests stuðnings samkvæmt skoðanakönnunum eða 36% og hefur fylgi þeirra aukist um 4% frá síðustu könnun Gallup. Píratar hafa ekki notið meira fylgis áður segir í fréttinni. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er 12%, Framsóknarflokksins 11% og Bjartrar framtíðar 4,4% sem er minnsta fylgi flokksins á kjörtímabilinu. Þá styðja 34% ríkisstjórnina sem er tveimur prósentum minna en í síðasta mánuði.
Skoðanakönnunin var gerð dagana 6. til 30. ágúst. Samtals voru 4290 í úrtaki Gallup og var svarhlutfallið 56,9%.