Íbúar í götum sem liggja við Eyrarland og Fossvogsveg í Fossvogi hafa nú sett af stað undirskriftasöfnun til að mótmæla fyrirhuguðum áformum um byggingu barnaskóla á reit í hverfinu, þar sem þeir telja aukna umferð um vegina munu auka slysahættu verulega.
Reiturinn sem um ræðir afmarkast af Fossvogsvegi, Árlandi og göngustígum til móts við Kjarrveg og Klifveg. Borgarráð fól umhverfis- og skipulagssviði að vinna deiliskipulag að reitnum þar sem verði m.a. gert ráð fyrir nýjum skóla Hjallastefnunnar, íbúðum og búsetuúrræði fyrir fatlaða. Stefnt er að því að lýsing og hugmynd að deiliskipulaginu verði lögð fyrir ráðið eigi síðar en í október nk.
Töluverð óánægja ríkir hjá íbúum á svæðinu um áformin um uppbyggingu skóla, þar sem nýr skóli myndi leiða til aukinnar umferðar sem þeir telja hverfið ekki vera hannað fyrir né þola. „Aukin umferð um hvort sem er Eyrarland, Árland eða Fossvogsveg eykur verulega slysahættu enda akstursskilyrði erfið. Göturnar eru þröngar, mjög erfitt er að sjá inn í þvergötur, bratti nokkur og snjóþyngsli veruleg yfir vetrarmánuði,“ segir í mótmælabréfi sem á annað hundrað íbúar hafa skrifað undr. Þegar búið verður að safna 200 undirskriftum verður bréfið sent til Reykjavíkurborgar.
Þá benda íbúar einnig á að börn í Fossvogi fari um dalinn gangandi eða á hjólum, enda sé t.a.m. hvatt til þess af skólayfirvöldum í hverfinu.
S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs segir enga ákvörðun hafa verið tekna um uppbyggingu á svæðinu, en borgarráð hafi falið umhverfis- og skipulagsráði að vinna deiliskipulag á reitnum þar sem gert væri ráð fyrir þessari starfsemi. „Þetta deiliskipulag verður unnið og að því loknu sent í auglýsingu. Þá geta íbúar og aðrir komið á framfæri athugasemdum. Við erum að kanna hvort þetta getur gengið upp á þessum stað,“ segir hann.
Tillagan var sett fram með það fyrir sjónum að leysa framtíðarhús&næðismál Hjallastefnunnar bæði hvað varðar leikskóla og barnaskóla, en Hjallastefnunni var sagt upp leigusamningi um aðstöðu á lóð Háskólans í Reykjavík við Öskjuhíð. Hefur starfsemin þar sprengt utan af sér, en einnig þarf hluti hennar að víkja vegna fyrirhugaðra breytinga á deiliskipulagi svæðisins.
Reiturinn er hins vegar það stór að skólnn og skólalóðin þarf einungis hluta hans. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að uppbygging íbúðabyggðar samræmist bæði aðalskipulagi og húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. Þá telur velferðarsvið að hagkvæmt væri að byggja þar einnig upp búsetuúrræði fyrir fatlaða.
Björn segir að markmiðið sé að auglýsa tillöguna og óska eftir athugasemdum í október eða nóvember, en hann eigi von á því að fólk á svæðinu muni fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri fyrir þann tíma sem hluta af gagnaöflun við vinnslu deiliskipulagsins. Aðspurður um það hvort óánægja íbúa muni hafa áhrif svarar hann játandi. „Allar athugasemdir eru teknar til athugunar og skoðað hvort þær séu þess eðlis að þær séu til breytinga. Ef þetta er þannig að það verði sýnt fram á að þetta gangi ekki upp samgöngulega þá þarf að bregðast við því,“ segir hann.