Sama veður til jóla

Það er bjartsýn spáin hjá veðurvitunum sem mæta í sund …
Það er bjartsýn spáin hjá veðurvitunum sem mæta í sund á Þingeyri á morgnana. Sama veður til jóla þakka ykkur fyrir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Spekingarnir í morgunklúbbnum í heita pottinum á Þingeyri hafa nú gefið út langtímaveðurspá. Þar kemur fram að veður verði nákvæmlega svona til jóla eins og það er núna, með vissum skekkjumörkum og fráhvarfseinkennum. Þetta kemur fram á Þingeyrarvefnum.

Veðurvitar þessir byggja spár sínar á gangi himintungla og Almanak Þjóðvinafélagsins er þeirra bók. Þeir segja að höfuðdagurinn hafi verið á laugardaginn og mikið mark sé á honum takandi, en  almenningur er eiginlega búinn að gleyma þeim degi og áhrifum hans segja þeir. 

Svo springur tunglið út í austri 13. september en þá taka við austanáttir. Norðanáttir taka svo við í október samkvæmt þeim fræðum. Telja spekingarnir að það verði sólríkir dagar inn á milli í september og október. Hvort það verði svo hvít jól vilja þeir ekki spá um á þessu stigi.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert