Taka verði vel á móti flóttamönnum

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Flótta­menn voru til umræðu á fundi borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur í dag en þver­póli­tísk til­laga var samþykkt á fund­in­um um að borg­in óskaði eft­ir viðræðum við rík­is­valdið um að hún tæki við fleiri flótta­mönn­um. Var til­lag­an samþykkt með öll­um at­kvæðum en einn borg­ar­full­trúi sat hjá við at­kvæðagreiðsluna. Til­lag­an er svohljóðandi:

„Borg­ar­stjórn samþykk­ir að óska eft­ir viðræðum við rík­is­valdið um hlut­verk og aðkomu borg­ar­inn­ar að mót­töku flótta­fólks og lýs­ir sig reiðubúna til að leggja sitt af mörk­um til að tryggja sem flest­um ör­uggt skjól. Borg­ar­stjóra er falið að hefja viðræðurn­ar, upp­lýsa borg­ar­ráð um fram­gang þeirra á meðan á viðræðunum stend­ur og leggja svo fram út­færða, tíma­setta og kostnaðarmetna áætl­un þegar niðurstaða ligg­ur fyr­ir.“

Breið samstaða var um málið og mik­il­vægi þess að hjálpa fólki sem ætti í nauðum í heim­in­um og þyrfti af þeim sök­um að flýða heima­lönd sín. Tals­verð umræða fór hins veg­ar fram um það hversu mörg­um flótta­mönn­um væri rétt að taka við hér á landi. Svein­björg Birna Svein­björns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar og flug­valla­vina, lagði áherslu á mik­il­vægi þess að huga einnig að Íslend­ing­um sem ættu um sárt að binda vegna fá­tækt­ar. Þá sagði hún að all­ir stjórn­mála­flokk­ar þyrftu að móta sér heild­stæðastefnu í inn­flytj­enda­mál­um.

Borg­ar­full­trú­ar sjálf­stæðismanna bentu á mik­il­vægi þess að standa vel að mót­töku flótta­manna. Það væri lyk­il­atriði hvernig staðið væri að þeim mál­um. Kjart­an Magnús­son, borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði meðal ann­ars að finna þyrfti heild­stæða lausn á flótta­manna­vand­an­um í heim­in­um. Nær­tæk­ast væri að hjálpa flótta­mönn­um í ná­granna­ríkj­um þeirra. Þá yrði einnig að hafa í huga að ekki væri ýtt und­ir það að flótta­menn settu sig til að mynda í hættu við að fara yfir Miðjarðar­hafið til þess að kom­ast til Evr­ópu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert