Landsvirkjun hefur tilkynnt stórkaupendum að draga þurfi úr afhendingu á raforku frá næstu mánaðamótum ef ástand vatnsbúskaparins batnar ekki þeim mun meira.
Innrennsli í miðlunarlón, ekki síst á Austurlandi, er minna en það hefur verið í meira en áratug vegna lítillar snjó- og jökulbráðnunar í sumar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Nú vantar 30% upp á að miðlunarlón Landsvirkjunar séu full. Útlit er fyrir að enn muni vanta 20% upp á fyllingu um næstu mánaðamót þegar öll lón eiga að vera full og byrjað að nota vatnið til raforkuframleiðslu. Landsvirkjun reiknar með að draga úr orkusölu um 3,5% á komandi vetri. Það getur þó breyst eftir ástandi vatnsbúskaparins.