„Samningurinn hefur mjög mikla þýðingu vegna þess að meðferðarkjarni er flóknasta og stærsta byggingin í þessum klasa á Hringbraut og er lykilatriði í að færa alla bráðastarfsemi undir sama þak,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Hann segir þetta vera meiriháttar öryggisatriði.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skrifaði í dag undir samning við Corpus hópinn um fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Áætluð heildarstærð meðferðarkjarnans er um 58.500 fermetrar. Byggingin mun verða á 6 hæðum neðan götu, 5 hæðum ofan götu auk kjallara.
Samningurinn er milli Nýs Landspítala ohf. og Corpus hópsins, sem var lægstbjóðandi í verkið, í útboði sem fram fór síðastliðið sumar í samræmi við fjárlög ársins 2015 og lög um skipan opinberra framkvæmda, að því er segir í tilkynningu sem Nýr Landspítali hefur sent.
Meðferðarkjarni er í stuttu máli megnið af þeirri starfsemi spítalans sem snertir sjúklinga með beinum hætti. Meðferðarkjarnanum, sem verður ríflega 58.500 fermetrar á sex hæðum, verður skipt upp eftir hæðum. „Þar verður á einum stað kjarni sjúkrahúsbráðaþjónustu á landinu. Á neðstu hæðunum er bráðamóttaka og bráðamyndgreining. Þaðan er farið upp í skurðstofur og gjörgæslu og þaðan á legudeildir,“ segir Páll.
Í meðferðarkjarnanum verður því þungamiðja bráðastarfsemi spítalans önnur en rannsóknir. „Þær verða í rannsóknarkjarna, sem verður í húsi sem verður byggt við hliðina á og á að rísa um leið en er mun minna og einfaldara í sniðum,“ segir Páll. „Þetta er gleðidagur fyrir þjóðina. Nú getur okkar fólk og Corpus-hópurinn klárað hönnunina á þessu.“
Eins og áður segir verður meðferðarkjarninn 58.500 fermetrar. Í dag er Landspítalinn í 108 húsum á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Stærstu kjarnarnir eru við Hringbraut, um 60.000 fermetrar, og 33.000 fermetrar í Fossvogi. Páll segir að megnið af húsnæðinu við Hringbraut verði nýtt áfram, en að spítalinn flytji að úr húsnæðinu í Fossvoginum.
Gagnrýnisraddir hafa verið uppi um að ekki sé gert ráð fyrir fæðingar- eða geðdeild í húsnæði nýja spítalans. Páll segir að í því samhengi verði að líta til þess að fæðingardeildin sé þegar nálægt Barnaspítala Hringsins sem í raun megi líta á sem fyrsta áfangann í uppbyggingu nýja spítalans við Hringbraut.
„Hins vegar hafa komið fram athugasemdir og við fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans þá verða aðilar frá kvennadeild og það verður skoðað mjög vandlega hvernig verður með bestum hætti hægt að tryggja öryggi fæðingarþjónustu og kvenþjónustu og samþætta þá þjónustu ef nauðsyn krefur,“ segir Páll.
„Það verður tækifæri til að skoða þau mál í lokahönnun. Varðandi geðdeildina þá er hún þrátt fyrir allt næstyngsta stóra bygging Landspítalans og ætlunin er að nota hana áfram. Hins vegar er hluti af áformunum við uppbyggingu á Hringbraut að byggja upp og lagfæra það húsnæði sem áfram verður notað. Einhverju verður að breyta með tilliti til breyttrar nýtingar en í öðrum tilfellum þarf að endurbæta húsnæði. Það gildir meðal annars um geðdeildarbygginguna sem þarf að færa nær nútímanum. Þar er reyndar þegar búið að byggja upp eina deild algjörlega, deild geðgjörgæslu, sem sýnir hvernig hægt er að umbreyta húsnæðinu til hins betra. og sem hluti af þessu verkefni verður restin af þeirri byggingu tekin fyrir í fyllingu tímans. Það kemur í kjölfar nýbygginga.“
Páll segir stefnt að því að sjúkrahótelið verði tilbúið 2018 og meðferðar- og rannsóknarkjarnar árið 2023.
Samninginn undirrituðu Kristján Þór og Grímur M. Jónasson frá VSÓ ráðgjöf fyrir hönd Corpus hópsins. Fjögur fyrirtæki standa að Corpus hópnum þ.e. Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar og VSÓ ráðgjöf.
Í þessari viku mun Nýr Landspítali bjóða út verkframkvæmd á sjúkrahóteli. Áætlað er að hefja framkvæmdir þar í byrjun nóvember og mun það rísa á Hringbrautarlóðinni norðan kvennadeildar Landspítalans, segir ennfremur.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að í dag hafi orðið ákveðin vatnaskil í uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Hann sagði að meðan Alþingi og Reykjavíkurborg breyttu ekki afstöðu sinni til málsins þá yrði þessu verki haldið áfram. „Þessi samningur núna markar ákveðin vatnaskil að því leytinu til að við erum að taka mjög stórt skref. Á sama degi fáum við afgreitt í samstarfsnefnd um opinber fjármál útboð byggingar sjúkrahótels. Þessi dagur markar tímamót því í þessu verki,“ segir Kristján Þór.
Grímur M. Jónsson fer fyrir Corpushópnum sem mun hanna nýja meðferðarkjarnann. Tilboð hópsins í hönnunina var undir þeim áætlunum sem gerðar höfðu verið vegna útboðsins. Hann á von á að verkið verði tilbúið til útboðs vorið 2018.