„Ekki lækkar þetta í manni rostann,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurður út í nýjasta þjóðarpúls Gallups, en þar mælast Píratar með 36% fylgi. Hann segir að flokkurinn muni áfram leggja áherslu á kerfis- og lýðræðisbreytingar og hvetur aðra flokka til að gera slíkt hið sama.
Stuðningur við Pírata hefur aldrei mælst meiri, en flokkurinn hlaut 5,1% í þingkosningunum fyrir tveimur árum. Píratar hafa sótt verulega í sig veðrið á þessu ári og hafa mælst með yfir 30% stuðning í síðustu könnunum og njóta mest stuðnings allra flokka.
Spurður út í þetta góða gengi, segir Helgi að kjósendur hafi áttað sig á því að það sé þörf á kerfisbreytingu á Íslandi. „Það er ekki bara þörf á nýjum stjórnmálamönnum, nýjum vinnubrögðum og nýrri hugsun eða einhverju þvíumlíku, heldur þarf kerfið sjálft - ákvörðunarferlið innan þings sem utan - að breytast. Það þarf að breytast í átt að lýðræði,“ segir Helgi.
Hann segir að Píratar hafi haldið þessari orðræðu á lofti og flokkurinn túlki stuðninginn sem staðfestingu á því að skilaboðin hafi náð til kjósenda sem kalli á kerfis- og lýðræðisbreytingar.
„Það að fylgið hafi staðið í stað í svona langan tíma verðum við að túlka sem staðfestingu á þeim grun. Enda er sá grunur mjög eðlilegur. Það er mjög margt sem þarf að bæta við lýðræðisfyrirkomulagið á Íslandi og það er frekar augljóst um leið og maður byrjar að tala um það,“ segir Helgi.
Nú er kjörtímabilið hálfnað og í næstu viku kemur Alþingi saman á ný. Spurður um áherslur á komandi þingi segir Helgi að lýðræðisumbætur og efling borgararéttinda séu grundvallaratriði sem Píratar muni hafa að leiðarljósi. „Það er ekki til mikilvægara málefni. Það að þjóðin hafi, að því er virðist að miklum hluta, áttað sig á á þessu og tekið undir þetta, er ofboðslega stórt tækifæri fyrir Ísland til þessa að verða raunverulega leiðandi í lýðræði, tjáningarfrelsi og borgararéttindum.“
Helgi bendir á að í dag sé Ísland ekki leiðandi í lýðræði, tjáningarfrelsi og í vernd friðhelgi einkalífsins. „Við getum hins vegar orðið það. Ég held að íslenska þjóðin, upp til hópa, vilji vera það. Þetta er tækifæri til þess,“ segir þingmaðurinn.
Þegar Helgi er spurður hvort hann líti á niðurstöður könnunarinnar sem hvatningu fyrir komandi þing segir hann: „Ekki lækkar þetta í manni rostann, svo mikið er víst.“
„Það er eitt og hálft ár í kosningar og það er ofboðslega margt sem getur breyst á þeim tíma. Við erum núna í 36 prósentum sem meira en þrjátíu prósentum meira en við fengum í kosningum. Þetta getur alveg breyst aftur sérstaklega þegar það koma inn ný framboð, sem væntanlega gerist, og sömuleiðis hljóta hinir flokkarnir að endurskoða sína stöðu, breyta sínum viðhorfum til tiltekinna mála,“ segir Helgi.
„Vonandi verður það í þá átt að það verði ekki jafn mikil þörf á okkur. Við viljum helst ekki þurfa að vera til. Það væri best ef það væri engin þörf á lýðræðis- og kerfisbreytingum. Það væri best ef það væri til samkeppni um lýðræðisumbætur meðal annarra flokka. Jafnvel ef fylgið fer niður, þá er það ekki sjálfu sér ekki áhyggjuefni ef það gerist á réttum forsendum. Það er bara áhyggjuefni ef það er vegna þessa að fólk hættir að líta til þessara mikilvægu breytinga sem þörf er á í stjórnskipuninni,“ segir þingmaðurinn að lokum.