Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkurborgar felldi á borgarstjórnarfundi á þriðjudag tillögu Sjálfstæðisflokksins um aukið gagnsæi vegna ferðakostnaðar starfsmanna Reykjavíkurborgar, með níu atkvæðum gegn sex.
Tillagan gekk út á að ákvarðanir um ferðir starfsmanna og ráðgjafa á vegum borgarráðs eða borgarstjórnar ætti að kynna í borgarráði áður en haldið yrði í ferðina, og aðrar ferðir starfsmanna og ráðgjafa skyldu kynntar á fundum í þeim nefndum eða ráðum sem viðkomandi svið heyrðu undir.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, að aðrar reglur eigi að gilda um starfsfólk borgarinnar en kjörna fulltrúa. Hann segir að ferðalög starfsmanna og ráðgjafa á vegum borgarinnar verði gerð upp ársfjórðungslega, sem samþykkt hafi verið fyrr í sumar.