Þeim sem fá matargjafir frá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur hefur fjölgað jafnt og þétt og álagið var orðið of mikið á þeim eina degi vikunnar sem úthlutun fór fram á.
Frá og með næstu viku verður fyrirkomulaginu breytt á þann veg að úthlutað verður tvo daga í viku, annan daginn kemur fjölskyldufólk og hinn daginn þeir sem búa einir.
Í umfjöllun um þessa starfsemi í Morgunblaðinu í dag segir Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, tilganginn vera að veita betri þjónustu. Hún segir að 400 – 500 leiti aðstoðar nefndarinnar í viku hverri og að talsverð aukning hafi orðið meðal yngra fólks.