Vel í stakk búin fyrir flóttamenn

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er formaður velferðarnefndar Alþingis.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er formaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Ómar

Málefni flóttamanna voru til umræðu á sameiginlegum fundi velferðar- og allsherjar- og menntamálanefnda Alþingis í morgun. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segir að greinilega hafi komið fram að Ísland sé vel í stakk búið að taka á móti fleiri flóttamönnum.

Fulltrúar frá velferðar- og innanríkisráðuneytunum komu á fund nefndanna og kynntu fyrir þingmönnum hvernig málefnum flóttamanna, kvótaflóttamanna og hælisleitenda hafi verið sinnt fram að þessu og að hverju ráðuneytin vinni að hvað þetta varðar þessa stundina, að sögn Unnar Brár Konráðsdóttur, formanns allsherjar- og menntamálanefndar.

Hún segir umræðuna ekki komna það langt að hægt sé að nefna ákveðinn fjölda sýrlenskra flóttamanna sem Ísland gæti tekið við. Sérstök ráðherranefnd stjórni því verkefni hvernig Ísland geti lagt sitt af mörkum til að taka á flóttamannastraumi til Evrópu. Hún muni funda á morgun.

„Það sem mér fannst jákvætt við fundinn var að það kom greinilega fram að við erum vel í stakk búin til að taka við fleiri flóttamönnum. Það skiptir máli að sveitarfélögin séu tilbúin til að taka þátt í þessu,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Nokkur sveitarfélög hafi þegar skráð sig hjá ráðuneytunum og önnur hafi spurst fyrir um það. Sigríður Ingibjörg segir mikilvægt að þau meti hvað þau treysti sér til að gera þar sem þau séu móttökuaðilar flóttamannanna.

„Við sjáum það af umræðunni sem hefur skapast að það er meirihluti landsmanna sem vill að við leggjum okkar af mörkum til þess að lina þjáningar stríðshrjáðra Sýrlendinga,“ segir hún.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert