„Þetta var mjög góður og upplýsandi fundur,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, í samtali við mbl.is en sérstök ráðherranefnd um flóttamannavandann fundaði í fyrsta sinn í dag.
Nefndina skipa auk Eyglóar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra. Þá sat fulltrúi utanríkisráðuneytisins einnig fundinn.
„Við fórum meðal annars yfir tillögur um það hvað sé mögulega hægt að gera, fjárhagsrammann og hvernig áður hefur verið staðið að móttöku flóttafólks hér á landi. Hvað hefði gengið vel og hvað illa,“ segir Eygló. Væntanlega yrði síðan fundað aftur í næstu viku.