Aðsókn í köfun í Silfru á Þingvöllum nálgast öryggismörk, að mati Ólafs Arnar Haraldssonar þjóðgarðsvarðar.
Aðsóknin hefur vaxið stöðugt síðustu ár og reiknar hann með að fjöldi gesta fari yfir 20 þúsund í ár. Fyrir fimm árum komu um fimm þúsund manns til að kafa og snorkla.
„Með þessa þróun í huga er að koma að mörkum við Silfru á margvíslegan hátt,“ segir Ólafur Örn. „Hvað öryggisþáttinn varðar getur aukin aðsókn leitt til aukinnar hættu og við nálgumst öryggismörk.“ Hann segir að náttúran í gjánni og bökkum hennar sé viðkvæm og þar þurfi að fara með gát svo gjáin skaðist ekki og mosi og annar gróður á bökkunum troðist upp.