„Sá vandi sem nú er uppi vegna flóttamannastraumsins frá Sýrlandi og nærliggjandi svæðum er miklu stærra mál en svo að hægt sé að horfa á það fyrst og síðast út frá því hve margir flóttamenn munu koma til Íslands,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Umræða um málefni flóttamanna hefur verið áberandi síðustu daga. Þungur straumur fólks frá til dæmis Sýrlandi og Líbanon hefur verið yfir Miðjarðarhafið og til Evrópu. Standa þjóðir álfunnar nú andspænis stóru viðfangsefni; það er að tryggja aðbúnað þessa fólks. Til skamms tíma var miðað við að Íslendingar tækju á móti 50 flóttamönnum. Síðustu vikuna hefur hins vegar komið fram þung krafa víða að úr samfélaginu að tekið verði á móti fleiri flóttamönnum. Þar hafa fulltrúar sveitarfélaga, kirkjunnar, samtaka launþega og fleiri lagt orð í belg.
Þessa dagana er verið að fara heildstætt yfir málavöxtu og möguleika í flóttamannamálinu. Í vikunni var skipuð nefnd um málefni flóttamanna og innflytjenda, þar sem sitja fimm ráðherrar sem þessi mál heyra undir. Sérfræðingahópur er tekinn til starfa og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur verið upplýst formlega um áhuga Íslendinga á að taka á móti sýrlensku fólki.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leggur áherslu á að í flóttamannamálinu verði vandað til verka og ekki hrapað að niðurstöðum sem svo standast ekki. Að Íslendingar taki á móti 50 flóttamönnum sé tala sem aldrei hafi verið föst í hendi. Á fundi fulltrúa Evrópuþjóða þar sem þessi mál voru í deiglunni hafi verið nefnt að af 40.000 flóttamönnum færu 9.000 til Frakklands og 12.000 til Þýskalands. Miðað við það hefðu Íslendingar verið að taka á móti hlutfallslega flestum. Það sé því alrangt að Íslendingar hafi boðist til að taka við óeðlilega fáum miðað við aðra. Bandaríkin hafi tekið við um 1.800 flóttamönum frá Sýrlandi svo dæmi sé nefnt. Það jafngilti því að Íslendingar tækju við tveimur.
„Í dag eru á Ísland um 220 hælisleitendur sem bíða eftir niðurstöðu í sínum málum. Við þurfum því að horfa heildstætt á þetta og vinna að lausn eins og svigrúm er til,“ segir forsætisráðherra. Hann bendir á að Sýrlendingar séu um 20 milljónir sem sé ámóta fjöldi og allir Norðurlandabúar samanlagt. Á ólgutímunum í Sýrlandi sem ríkt hafi síðustu misserin hafi um 12 milljónir manna yfirgefið heimili sín, en aðeins um 2% þeirra haldið til Evrópu. Alls um 98% þessa hrjáða fólks séu enn í heimalandi sínu og nálægum löndum og búi við hrikalegar aðstæður. „Það má ekki gleyma þessum 98% þó við sjáum ekki myndir af þjáningum þeirra.“
„Það væri varhugavert ef Evrópa sendir þau skilaboð að til að fá aðstoð þurfi flóttamenn að leita ásjár glæpahópa og leggja sig í lífshættu við að reyna að sigla til Evrópu eða komast eftir öðrum hættulegum leiðum. Geri menn það geti þeir átt von um aðstoð en ella búi menn við hörmulegar aðstæður og svelti jafnvel í flóttamannabúðum. Áhrifaríkar fréttamyndir vekja sterk viðbrögð hjá okkur en við megum ekki gleyma þeim sem ekki sjást á myndunum. Viðbrögð okkar geta aldrei miðað að því að uppfylla mögulega þörf okkar sjálfra fyrir að sjá árangurinn af starfinu eða hljóta þakkir fyrir. Við verðum fyrst og fremst að velta því fyrir okkur hvernig við getum bjargað flestum mannslífum til skemmri og lengri tíma,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.