Vilja fleiri flóttamenn hingað

Guðmundur Steingrímsson lét af formennsku í Bjartri framtíð í dag …
Guðmundur Steingrímsson lét af formennsku í Bjartri framtíð í dag og Óttarr Proppé tók við sem formaður. Víkurfréttir/Hilmar Bragi Bárðarson

Björt framtíð vill að Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum en til stóð og telja flokksmenn að grípa þurfi til aðgerða strax. Alls tóku sextíu manns þátt í ársfundi flokksins í dag þar sem ný forysta flokksins tók við. 

Lagabreytingartillaga Guðmundar Steingrímssonar, um að flokksmenn skiptist á að gegna helstu stöðum innan Bjartrar framtíðar, var ekki lögð fyrir á ársfundi flokksins í dag. Þess í stað lagði Guðmundur fram tillögu þess efnis að stjórn flokksins myndi skipa 3-5 fulltrúa í lagabreytingarnefnd sem myndi vinna að lagabreytingartillögum sem yrðu lagðar fyrir næsta ársfund og var sú tillaga samþykkt. Guðmundur sagðist vilja leggja sína hugmynd til þeirrar vinnu.

Auk þess samþykkti fundurinn nýja heilbrigðisstefnu flokksins en í henni segir meðal annars að flokkurinn styðji fjölbreytni í rekstri heilbrigðisþjónustu þar sem saman fara fagmennska og samfélagsleg ábyrgð varðandi skipulag, framkvæmd og rekstur. 

Einnig samþykkti flokkurinn að stjórn flokksins yrði falið að skipa í ungliðanefnd sem hefði það hlutverk að ýta skipulagðri ungliðastarfsemi úr vör.

Ennfremur var ítrekuð áskorun til stjórnvalda um að gera betur þegar kemur að málefnum flóttafólks. 

„Ársfundur Bjartrar framtíðar skorar á stjórnvöld að endurskoða tafarlaus fyrirætlaðar aðgerðir varðandi móttöku flóttafólks og auka fjölda þeirra sem hingað koma til mikilla muna. Neyðarástand það sem blasir við vaxandi fjölda flóttafólks sem leitar til Evrópu að alþjóðlegri vernd, kallar á róttæk og snör viðbrögð. Börn, konur og karlar standa frammi fyrir gríðarlegum hörmungum og sífellt berast fréttir af dauðsföllum sökum ástandsins.

Ísland getur boðið mun fleira flóttafólk velkomið og okkur ber siðferðileg skylda til að leggja okkar af mörkum. Koma flóttafólks auðgar jafnframt íslenskt samfélag.

Við eigum jafnframt að bregðast við með því að bjóða mun meiri aðstoð á svæðum þar sem hörmungarnar eiga sér stað, á hvern þann hátt sem við best getum. Sýnum í verki að við viljum standa vörð um mannréttindi og réttindi fólks til öruggs lífs!,“ segir í ályktun fundarins.

Ný forysta var kjörin á ársfundi Bjartrar framtíðar sem lauk á fimmta tímanum í dag. Óttarr Proppé var sjálfkjörinn formaður. Brynhildur S. Björnsdóttir, varaþingmaður og gjaldkeri flokksins hlaut kjör stjórnarformanns en hún hlaut 61% greiddra atkvæða.

Fundinn sóttu um 60 manns. En fundinum var varpað beint á netinu og rafrænar kosningar um helstu málefni. Alls tóku 122 þátt í kosningu stjórnarformanns flokksins.

Einnig var tilkynnt að Brynhildur Pétursdóttir tekur við sem þingflokksformaður en áður gegndi Róbert Marshall því starfi.

Af ársfundi Bjartrar Framtíðar í dag.
Af ársfundi Bjartrar Framtíðar í dag. Víkurfréttir/Hilmar Bragi Bárðarson
Brynhildur Pétursdóttir, Óttarr Proppé og Brynhildur S.Björnsdóttir
Brynhildur Pétursdóttir, Óttarr Proppé og Brynhildur S.Björnsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka