„Þetta snýst ekki um mig“

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar. Eggert Jóhannesson

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar segist ítrekað hafa velt fyrir að stíga til hliðar en hann ætlar ekki að gera það. Þetta kom fram í máli Árna Páls í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Hann segist telja það verkefni sitt að koma með hugmyndir um hvernig Samfylkingin brjósti sig út úr þeirri stöðu sem flokkurinn sé í dag. Að skoða meðal annars samstarf við aðrar stjórnmálaflokka. 

„Þetta snýst ekki um mig,“ segir Árni Páll og segir að það muni fara fram allsherjaratkvæðagreiðsla um kjör á formanni Samfylkingarinnar vel fyrir næstu þingkosningar. Formannskjör fari fram á næsta ári og val á framboðslista muni fara fram eftir að ljóst er hvernig forysta flokksins verður skipuð. Valið fari fram með prófkjörum.

Hann segir að það eigi að vera svigrúm fyrir margar skoðanir innan Samfylkingarinnar og að Píratar hafi sameinast um meginmarkmið og að hans mati sýni flokkurinn þroska með því. 

Hann segir að það sé ágalli á íslenskum stjórnmálum sé hugmyndaþurrð og það einkenni störf núverandi ríkisstjórn. Fólk sem hafi flutt í burtu er ekki að snúa aftur þar sem það eru ekki boði störf fyrir þetta fólk sem hefur jafnvel áhuga á að setja á stofn þekkingarfyrirtæki hér á landi. 

Á meðan verið að þrasa um fortíðina gleymist að tala um það sem skiptir fólki máli.

„Krónan er búin,“ segir Árni Páll og segir að krónan sé tæki til að flytja auðævi frá venjulegu fólki til útflutningsfyrirtækja á einni nóttu án þess að fólk geti nokkuð að gert. Eina leiðin til þess að krónan virki sé að halda henni í höftum.

Árni Páll vill gera breytingar á menntakerfinu og gera breytingar í sjávarútvegi. Hann er hæfilega kvíðinn þegar kemur að fjárlagafrumvarpinu.

Hann ætlar að horfa á landsleikinn í kvöld líkt og flestir aðrir Íslendingar en Árni Páll á ekki miða á leikinn en ætlar að horfa á leikinn með föður sínum, Árna Pálssyni, fyrrverandi sóknarprest, sem er kominn undir nírætt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert