Fjandsamlegur tónn í dómsalnum

Magnús Guðmundsson mætir í dómssal í morgun.
Magnús Guðmundsson mætir í dómssal í morgun. Árni Sæberg

Dómari í Marple-málinu ákvað að reyna að stilla til friðar milli saksóknara og ákærða í málinu þegar tónn í spurningum og svörum þeirra fóru að verða heldur fjandsamleg. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er meðal þeirra sem bera vitni í málinu í dag, en hann hélt um klukkutíma ávarp áður en hann hóf að svara spurningum þar sem hann fór yfir ákærur saksóknara gegn sér og sagði framkomu embættisins og starfshætti fyrir neðan allar hellur og brjóta mannréttindi á sér.

„Yfirnáttúrulega vitlaus ákæra“

Í ávarpi sínu sagði Magnús frá því sem hann taldi vera ólöglega hlerun á síma sínum, farbann sem hann taldi í tráss við mannréttindi sín og aðeins nýtta af saksóknara til að geta hlerað síma hans, sem ekki hefði verið hægt erlendis. Kallaði hann embætti sérstaks saksóknara í ávarpi sínu SS, en óvíst er hvort hann hafi með því verið að vísa til deildar innan þriðja ríkisins í Þýskalandi á tímum nasismans.

Þá fór hann í löngu máli yfir málefni félagsins Marple, sem málið snýst um, þar sem hann útskýrði að ekki hefði verið um fjárdrátt eða umboðssvik að ræða, heldur eðlileg viðskipti milli bankans og dótturfélags hans í Lúxemborg og Marple.  „Þetta er yfirnáttúrulega vitlaus ákæra,“ sagði Magnús um þær sakir sem honum eru bornar.

Deilt um hver sé eigandi Marple

Samkvæmt ákæru sérstaks saksóknara var Magnús milliliður í að koma fjármunum til félagsins Marple og að koma ágóða af skuldabréfaviðskiptum í félagið á kostnað bankans. Magnús sagði aftur á móti að þeir samningar sem hefðu verið gerðir væru til þess að draga úr áhættu Marple, sem var viðskiptavinur Kaupþings í Lúxemborg, en höfðu einnig gagnast Kaupþingi með að draga úr skuldum og áhættu. Tók hann þar með undir með Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra samstæðunnar, sem hafði tekið í þennan streng fyrr í dag.

Deilt hefur verið um hver var raunverulegur eigandi Marple, en Hreiðar sagði meðal annars að hann hafi talið að Skúli Þorvaldsson væri eigandinn. Verjandi Skúla birti aftur á móti skjal úr opinberum skrám í Lúxemborg sem sýndu fram á að Kaupþing væri eigandi félagsins. Sagði Magnús að þar sem hann hafi í flestum tilfellum séð um ákvarðanir fyrir félagið og þar sem það hafi á endanum verið með mikið neikvætt eigið fé, þá hafi ekki verið skrítið að Skúli hafi talið að félagið væri í eigu Kaupþings, en bankinn var með tryggingar í eignum Marple vegna útistandandi lána. Enn sem komið er hefur því ekki komið skýrt fram hver eigandi félagsins var á þeim tíma.

Rannsókn og framkvæmd „hrein mannvonska“

Eins og fyrr segir fór Magnús löngum orðum um framkvæmd sérstaks saksóknara við rannsókn málsins og sagði hann til dæmis að frysting eigna Skúla og ættingja hans sem ekki tengdust málinu væri „hrein mannvonska.“

Þegar saksóknari hóf að spyrja Magnús um ákæruliði var ljóst að talsverð fjandsemi var á milli þeirra, enda hafði Magnús reynt að höfða til samvisku saksóknara í ávarpi sínu um hvað hún væri að gera við líf hans. Spurði saksóknari hann meðal annars hversu oft hann hefði verið í sambandi við Skúla. Svaraði Magnús því að samband þeirra hefði verið gott. Þegar saksóknari ítrekaði hversu oft þau samskipti höfðu verið spurði Magnús hvað saksóknari ætti við með oft. Eftir nokkrar álíka spurningar og svör sem svöruðu jafn litlu skarst dómarinn í leikinn og reyndi að tóna niður þau hortugheit sem voru að magnast upp á milli saksóknara og ákærða.

Það gekk eftir, en þrátt fyrir það mátti vel heyra óþolinmæði Magnúsar gagnvart spurninga saksóknara, enda hafði hann sagt að með spurningum sínum og lýsingu væri saksóknari að reyna að skapa hughrif hjá dómara og fjölmiðlafólki í salnum.

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari í málinu, ásamt starfsfólki sérstaks saksóknara og …
Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari í málinu, ásamt starfsfólki sérstaks saksóknara og Friðriki Friðrikssyni Hirst, lögmanni Kaupþings. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert