Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði tveimur skemmtistöðum í nótt þar sem þeir höfðu brotið reglur um opnunartíma og sölu áfengis. Forsætisráðherra hafði sagt landsliðinu að allir staðir yrðu opnir fyrir þá um nóttina en landsliðið var einmitt á öðrum staðnum þegar lögreglan lokaði honum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra skrifaði á Facebooksíðu sína í gærkvöldi:
„Til hamingju með að upplifa einhvern stærsta dag íslenskrar-, ég meina evrópskrar-, íþróttasögu …til þessa! Nú sé ég eftir því að hafa ekki verið búinn að tryggja forsætisráðherra vald til að gefa öllum frí með skömmum fyrirvara þegar tilefni er til. Reyndar sagði ég landsliðsstrákunum eftir leikinn að allir veitinga- og skemmtistaðir yrðu opnir fyrir þá í nótt eins lengi og þeir vildu. Eftir á að hyggja hafði ég formlega séð líklega ekki vald til þess heldur ...en ég geri ekki ráð fyrir að neinn muni reyna að reka þá í háttinn.“
Á Fótbolti.net kemur fram að lögreglan hafi komið inn á skemmtistaðinn b5 eftir eitt í nótt, „þar sem stuðningsmenn fögnuðu með íslenska landsliðinu, og landsliðsmönnum og öðrum var fleygt þaðan út,“ segir í frétt Fótbolta.net.
Reglur kveða á um að skemmtistaðir megi ekki vera opnir lengur en til klukkan 1 að nóttu á virkum dögum.