Í kjölfar Facebook viðburðarins „Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar“ hefur gífurleg umræða myndast um móttöku flóttafólks á Íslandi. Í viðburðinum býðst stór hópur fólks til þess að aðstoða við komu flóttafólks til Íslands, hvort sem það væri með því að útvega húsnæði, föt, peninga eða leikföng. Síðustu vikuna eða svo hefur fjöldi sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum aukist um tæpan þriðjung. Í Reykjavík hefur aukningin verið 70%.
Þessi mikli áhugi endurspeglaðist í fjölda fólksins sem mætt var í hús Rauða krossins við Efstaleiti í dag þar sem fram fór fræðslufundur um móttöku flóttafólks.
Við upphaf fundarins sagði Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi það nauðsynlegt þegar það kæmi að móttöku flóttamanna að kynna hana vel fyrir almenningi og öllum sem að því koma. Nefndi hann komu flóttakvenna frá Írak og Palestínu til landsins sem settust að á Akranesi árið 2008 í því samhengi. Hann lagði áherslu á að flóttamenn yfirgæfu ekki heimili sín að ástæðulausu heldur hafi þau lent í hryllilegum aðstæðum sem ekki væri hægt að lýsa í máli eða myndum.
„Enginn ætlast til þess að fólk sem lendi í slíku aðlagist og verði að Íslendingum eða öðru þjóðerni á skömmum tíma. Þó svo að öll heimsins ástúð fylgi þessu fólki og að því sé fylgt áfram af væntumþykju og umhyggju,“ sagði Sveinn. Hann bætti við að það að taka á móti flóttafólki væri langtímaverkefni sem er faglega unnið með sjálfboðaliðum. „En fyrst og fremst verða opinberir aðilar að standa sig.“
Hann sagði það viðkvæmt og viðamikið verkefni að taka á móti flóttamönnum. „Það hefur verið mjög uppörvandi síðustu daga að sjá hvernig sjálfboðaliðum hafa fjölgað. Fólk hefur streymt hingað inn að láta skrá sig til ýmsu verka. Við erum bara þannig, við getum ekki öll gert allt en við getum öll gert eitthvað lítið.“
Fyrst á svið var rithöfundurinn Bryndís Björgvinsdóttir en hún stofnaði Facebook viðburðinn „Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar“. Bryndís lýsti því fyrir áheyrendum hvernig hana hafi langað að gera eitthvað meira fyrir fólkið í Sýrlandi en „að senda sms í Unicef og gefa 1500 kall.“
„Þá datt mér í hug að stofna viðburð á Facebook. Mér fannst þessi tala á flóttamönnum sem rætt var um í fjölmiðlum, 50, alltof lág og svo fannst mér alltof langur tími að taka á móti þeim á tveimur árum. Mér fannst það alltof langur tími, að bíða í tvö ár í flóttamannabúðum á meðan í Hafnarfirði stendur t.d. St. Jósefsspítali tómur og það er fullt af fólki sem vill taka þátt,“ segir Bryndís í dag.
Bryndís sagðist þó gera sér grein fyrir því að það væri ekki nóg að bjóða upp á kaffi og bjóða svefnpokapláss til þess að hjálpa flóttamönnum. „En ef allir líta í kringum sig og hugsa hvað get ég gert er kannski hægt að koma púsluspilinu saman. Ég vildi með þessu skapa þrýsting og sýna að við viljum gera meira og getum gert meira.“
Hún sagði að markmið viðburðarins hafi verið að safna gagnlegum upplýsingum um þá aðstoð sem er í boði. „Rauði krossinn kom fljótt inn í það og sýndi hvar hægt var að skrá sig sem sjálfboðaliði. Þetta var táknræn síða sem varð praktísk.“
Að sögn Bryndísar var tilgangurinn að skapa þrýsting og veita fjölmiðlum færi til þess að tækja umræðuna í gegnum þennan ákveða ramma. „Hugmyndin var sú að skapa þrýsting sem mun leiða til þess að talan hækki og viðbragðsflýtinn verði meiri.“
Hún segir að viðburðurinn hafi dreift úr sér á gífurlegum hraða. „Það var eins og allir hefðu verið að hugsa þetta sama. Ég fór út í sveit að týna blóm og þegar ég kom til baka var búið að bjóða 2000 eða 3000 manns. Þetta fór á fleygiferð og mér finnst ég ekki hafa gert neitt annað en að stofna viðburðinn og skrifa texta.“
Bryndís sagði þó að það hafi hugsanlega verið mikilvægt að skrifa texta til að ramma inn verkefnið. „Það ótrúlega gerðist að fullt af fólki sem er að hugsa það sama og er jákvætt og hugsar í lausnum gat loksins í sér heyra. Góðu fréttirnar eru þær að þeir sem eru jákvæðir og vilja gera betur eru fleiri en neikvæðir þó það líti ekki oft þannig út á kommentakerfum fjölmiðla. Það sýndi sig um leið og þegar að praktískur rammi kom þá birtust allar jákvæðu raddirnar.“
Bryndís sagði að þeir sem líta neikvætt á viðburðinn hafi yfirleitt verið með sömu spurningarnar. „Þurfum við ekki fyrst að hugsa um okkur?“. „En hvað er við? Hver eru okkur?“ spurði Bryndís. Það kom í ljós að þeir neikvæðu vilja ekki hjálpa því það eru einhverjir hlutir sem mættu betur fara á Íslandi.
Bryndís sagði hugsun sem þessa minna á þjóðernishyggju og að hún væri vissulega úrelt hugtak.
Hún sagðist jafnframt tengja þá hugsun að taka litla hópa við íslenska íhaldssemi. „Við höfum verið a taka á móti litlum hópum og við höfum tekið á móti miklu færri en lönd sem viljum bera okkur saman við miðað við höfðatölu. Ég hef líka heyrt að það sé núna þrýstingur á okkur frá alþjóðasamfélaginu um að vera minna á bremsunni og meira eins og fólkið í kringum okkur. Ég tengi þetta við íhaldssemi sem er rótgróin á íslandi. Við erum viðkvæm og sérstaklega viðkvæm fyrir útlendum áhrifum,“ sagði Bryndís og benti á að Íslendingar hefðu ekki tekið á móti einu gyðingabarni í seinni heimstyrjöldinni og beðið um að svartir hermenn yrðu ekki sendir til Íslands. „Það var eins og Íslendingar myndu bara fá hjartaáfall við að sjá eitthvað öðruvísi. Erum við svona gamaldags?“ spurði Bryndís.
„Þegar það kemur að því að taka þátt í þessu erum við rosa viðkvæm og viljum vera einsleit sem fer engan veginn saman við allt annað sem við gerum. Við stundum alþjóðleg viðskipti, tökum þátt í alþjóðlegum íþróttamótum og fjölmargir Íslendingar fara í nám erlendis.“
Bryndís sagði að það þyrfti að hugsa það ferli, móttöku flóttamanna hér á landi upp á nýtt. „Þetta tekur tvö ár því það þarf að búa til einhvern pakka. En nú til dags snýst allt um að lágmarka flækjustig og gera allt eins einfalt og hægt er. Mér finnst að það sé eitthvað sem við þurfum að skoða, er búið að taka öll flækjustig er þetta eins einfalt og hægt er? Eru til aðrar leiðir til að koma þessu fólki í öruggt skjól, hreint vatn og frá ofbeldi sem fyrst?“
Hún sagði að viðburðurinn hafi orðið svo miklu stærri en hún bjóst við. Erlendir fjölmiðlar hafa sýnt honum gífurlegan áhuga og hefur hún varla undan að svara tölvupóstum erlendis frá. Hún sagði jafnframt að um tíu manns væri nú í hópnum bakvið viðburðinn.
Í svari við spurningu úr salnum um framtíðaráform hópsins sagði Bryndís að nú stæði til að halda áfram að þrýsta, enda hafa ekki borist svör sem hópurinn er ánægður með. „Við viljum fá skýrari svör,“ sagði Bryndís. Hún bætti við að hópurinn hefði áhuga á að búa til myndband og taka saman innihald bréfanna á viðburðinum. „Við viljum halda þrýstingnum áfram. Við viljum ekki að þetta verði fréttir gærdagsins.“