Heimili er flestum sem þar búa heilagt og Bryndís Eva Jónsdóttir innanhússarkitekt segist nálgast fólk á þess forsendum í starfi sínu. Henni finnst starfið bæði gjöfult og skemmtilegt og því fylgja yndisleg viðkynni við fólk. Hún lærði í Atlanta í Bandaríkjunum og það hefur verið brjálað að gera undanfarið.
Ég ólst upp í húsgagnaversluninni Bústofni sem foreldrar mínir, Jón Jakobsson og Gudrun Jakobsson, ráku í mörg ár. Ég var ekki nema þrettán ára þegar ég byrjaði að vinna á sumrin í búðinni og ég var farin að afgreiða og þjónusta viðskiptavinina þegar ég var sextán ára. Ég teiknaði meira að segja upp eldhús líka, en mamma fór að sjálfsögðu yfir þær teikningar,“ segir Bryndís Eva Jónsdóttir innanhússarkitekt sem hefur gert það gott í sínu fagi undanfarin ár.
„Áður en ég fór út í nám þá tók pabbi mig afsíðis og spurði hvort þetta væri virkilega það sem ég vildi gera, hvort þau foreldrarnir væru nokkuð að ýta mér óbeint út í þetta með búðarvinnunni. En ég var alveg viss í minni sök. Þegar ég fór í tækniteiknun í Iðnskólanum eftir að hafa klárað stúdentinn í MR, þá virkilega fann ég mig og einkunnirnar ruku upp.“
Bryndís sótti um í nokkrum löndum í skólum sem buðu upp á nám í innanhússarkitektúr og komst inn í flottan skóla í Englandi, en þar var útlendingakvóti og ekkert pláss fyrr en ári síðar.
„Eitt ár er heil öld hjá 21 árs manneskju og ég nennti ekki að bíða og fór því í skóla til Atlanta í Georgíu. Þar ætlaði ég að vera þetta eina ár, en mér fannst skólinn æðislegur, kennararnir frábærir og ég kunni rosalega vel við mig, svo ég var áfram,“ segir Bryndís sem lauk náminu á tæpum fimm árum og starfaði í framhaldinu í tvö ár hjá innanhússarkitektastofu í Atlanta.
„Þar var ég að hanna fyrir spítala, banka og skrifstofur og þetta var gríðarlega góð reynsla, því þetta var lítil stofa og ég fékk að vera með puttana í öllu.“
Bryndís ætlaði ekki að flytja á næstunni aftur heim til Íslands en dvöl hennar lauk fyrr en til stóð í Bandaríkjunum af persónulegum ástæðum, með skilnaði við þarlendan eiginmann.
„Ég ætlaði að staldra stutt við hér heima, en er hér enn. Þetta var árið 1995 og þá var fyrri kreppan hér og ekki mikið að gera í mínu fagi. Ég skellti mér í Iðnskólann í verklega hönnun til að fá grunnþekkingu í stálsmíði og trésmíði og það var mjög skemmtilegt. En ég var alltaf á leiðinni aftur út og þegar ég var búin að landa nokkrum lausamennskuverkefnum á Írlandi og nánast á leið út á völl með ferðatöskurnar, þá gaukaði mamma að mér auglýsingu frá Ofnasmiðjunni þar sem óskað var eftir hönnuði, en þeir seldu innréttingar í verslanir. Mér leist ekkert á en sótti um og fékk starfið. Sem var heillaspor, ég vann hjá Ofansmiðjunni í sex ár og þar stofnaði ég hönnunardeild sem varð stór og þekkt í verslunargeiranum.“
Að þeim árum liðnum þótti Bryndísi kominn tími til að hún færi út í eigin rekstur.
„Og þar hef ég verið síðan. Vissulega var þetta þungur bolti að rúlla af stað og það kom kalt tímabil eftir hrunið mikla. En núna er brjálað að gera hjá mér og þannig hefur það verið undanfarin fjögur ár. Stöðugt jafnt og þétt og yfirleitt er fjögurra til fimm vikna bið eftir því að komast að hjá mér.“
Í kjölfar hrunsins fór Bryndís að bjóða upp á heimaráðgjöf, en þá kemur hún í stutta heimsókn til fólks og gefur ráð án þess að teikna.
„Þetta er enn mjög vinsælt, til dæmis hjá fólki sem er að fara út í breytingar eða viðbætur og vill fá hugmyndapakka sem það vinnur svo sjálft út frá. Þetta getur verið allt frá húsgagnavali, litavali, hvort og hvar eigi að brjóta niður veggi, hvernig parket eigi að vera hvar og ótal margt fleira. En ef á að gerbreyta þá borgar sig að láta teikna. Stundum aðstoða ég fólk við eitt herbergi heimilisins, stundum með allt heimilið. Grundvallaratriðið er að bíða ekki með að kalla á innanhússarkitekt, ef til stendur að fá hann á annað borð. Í mínum ákvörðunum kemur praktíkin fyrst, ég er pínu ferköntuð með það. En ég geri praktíkina fallega,“ segir Bryndís og bætir við að sér finnist ekki síður ögrandi og skemmtilegt að leysa verkefni í þröngu rými en stóru.
En Bryndís tekur ekki aðeins að sér að innrétta heimili fólks, hún hannar einnig vinnustaði og fyrirtæki.
„Ég lauk nýlega við að innrétta Matarbúrið á Grandagarði, það var mjög skemmtilegt verkefni sem var unnið í samstarfi við finnskan leikmyndahönnuð.“
Heimili er flestum sem þar búa heilagt og Bryndís segist nálgast fólk á þess forsendum í starfi sínu.
„Mitt starf er að komast að því hverju viðskiptavinirnir vilja ná fram hverju sinni. Góður innanhússarkitekt hlustar. Ég er í þjónustuhlutverki en kem svo með mína sérþekkingu og ráð út frá óskum fólks. Ef mér finnst að eitthvað eigi að vera öðruvísi en því finnst, þá er grundvallaratriði að ég rökstyðji það. Þetta er mjög gjöfult og skemmtilegt starf og yndisleg viðkynni við allt þetta fólk sem ég hef unnið fyrir. Það gefur mér mikið þegar fólk er ánægt að verki loknu.“ Bryndís segir að ekki séu húsráðendur alltaf sammála þegar kemur að því að hanna heimili, en þá vinni þau saman í því að finna lausn sem allir eru ánægðir með og sáttir við.
„Maður þarf að vera flinkur í mannlegum samskiptum í þessu starfi, en ég fékk góða þjálfun í því á Dale-Carnegie-árunum mínum, sem gerbreyttu reyndar lífi mínu. Ég endaði með að vera aðstoðarmaður og þjálfari, fór til Bandaríkjanna í þjálfun og þetta var lengi mín aukavinna. Ég lærði hjá Dale-Carnegie að láta mér líða vel með sjálfa mig og það sem ég er að gera.“
Bryndís er mikið náttúrubarn og eitt af hennar aðaláhugamálum er að ferðast um Ísland. Hún er í vinkvennahópi sem fer árlega í langa gönguferð.
„Í sumar fórum við til Víkur í Mýrdal en veðrið var svo klikkað að við gátum ekki gengið eins mikið og til stóð. En í staðinn hlógum við saman innandyra, það er ekki síður hressandi. Ég er líka mikill bókaormur, ég les eina bók í hverri viku,“ segir Bryndís sem einnig hefur verið að prófa sig áfram í golfinu með eiginmanninum.
Uppáhaldshlutverkið í lífi Bryndísar er ömmuhlutverkið, sem henni finnst yndislegt, en hún á tvö barnabörn, strák og stelpu.
„Þau eru sjö og fjögurra ára og þau gera lífið sannarlega dásamlegra.“