Nanna Hlín Halldórsdóttir doktorsnemi í heimspeki við Háskóla Íslands flutti hugvekju við setningu Alþingis í dag sem hún nefnir: „Að standa fyrir fólkið“. Samkvæmt vefsíðu Siðmenntar mætti að þessu sinni níu þingmenn frá fjórum þingflokkum til hugvekjunnar sem haldin er á sama tíma og guðþjónustan í Dómkirkjunni.
Í hugvekjunni lagði Nanna áherslu á fulltrúalýðræði. Hún sagði hvað það fæli í sér væri stórt þrætuepli sem þingmenn gætu rætt allan veturinn.
„Ástæða þess að ég vil einskorða mig við fulltrúarlýðræðið er sú að ef við myndum takmarka lýðræðishugmyndina við þau stjórnmál sem stunduð eru á Alþingi og í sveitastjórnum þá myndi ég halda því fram að um þrönga skilgreiningu á lýðræðishugmyndinni væri að ræða – sem að til dæmis lokaði fyrir lýðræðisvæðingu á þeim stöðum sem flest fólk eyðir miklum tíma sem er vinnustaðurinn,“ sagði Nanna og spurði síðan hvað það þýddi að vera fulltrúi fólksins í þeim verkefnum að deila niður auði sem og verkum í einu samfélagi.
„Í þeim fræðum sem ég stunda – gagnrýnum fræðum sem leitast við að skoða og gagnrýna samfélagskerfið sem heild en ekki aðeins betrumbæta einstaka þætti þess – og femínískum fræðum sem ganga ekki aðeins út á að skoða stöðu karla og kvenna, heldur einnig að bera fram nýjan mannskilning – mannskilning sem leggur áherslu á að verund okkar sé mótuð af samfélaginu og þeirri stöðu að fæðast berskjölduð í þennan heim fullkomlega háð umhyggju þeirra sem á undan okkur koma – já í þessum fræðum þá mætti kalla einn stærsta vandann eða debattið: fulltrúa-vandann. Nú bregst okkur aðeins íslenskan en á enskunni myndum við tala um the problem of representation,“ sagði Nanna.
Hún velti því upp hvort að fulltrúar þjóðarinnar gætu yfirhöfuð tala fyrir hönd annarra og í annarra manna nafni.
„Get ég nokkurn tímann fullkomlega skilið reynslu eða upplifanir annarra? Get ég kannski talað fyrir þá er standa mér næst – það fólk sem birtist öðrum á sama hátt og ég – er sett í sama félagslega flokkinn: Kona eða karl, svartur eða hvítur, gömul eða ung? Standa allir í raun jafnfætis í dag óháð þessum félagslegu flokkum?“ spurði Nanna.
„Ef þið svarið neitandi… eða bendið á að allt sé þetta frekar flókið – þá vakna upp enn fleiri spurningar: Hver er mín persónulega staða í heiminum og hvernig litast viðhorf mín af þeirri stöðu?“
Hún sagði jafnframt að fulltrúavandinn ætti ekki aðeins við í pólitísku samhengi heldur á hann við um alla menningu og allan þann hátt sem ákveðnar manngerðir eru birtar okkur. Nefndi hún í því samhengi birtingamyndir kvenna og karla í bröndurum eða sjónvarpsþáttum, miðausturlandabúa í fjölmiðlum og svo mætti lengi telja upp. „Þessar birtingamyndir skipta sköpum í því hvernig að fólk í ólíkum félagslegum mengjum birtist okkur," sagði Nanna.