Sextán þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum eru flutningsmenn frumvarps um breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak og fleiri lögum en markmið lagabreytingarinnar er að ríkið láti af einkasölu sinni á áfengi og sala þess verði gefin frjáls.
Efnislega er um að ræða sama frumvarp og flutt var á síðasta þingi. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er sem fyrr fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn eru níu þingmenn sjálfstæðisflokksins, þrír þingmenn Framsóknarflokksins, tveir þingmenn Bjartrar framtíðar og einn þingmaður Pírata.
Eftir sem áður gildi strangar reglur um áfengissölu og er til að mynda gert ráð fyrir að allir þurfi að framvísa skilríkjum sem er breyting frá fyrra frumvarpi.