Engin fordæmi fyrir umfangi brotanna

Hreiðar Már Sigurðsson er ákærður fyrir fjárdrátt og umboðssvik í …
Hreiðar Már Sigurðsson er ákærður fyrir fjárdrátt og umboðssvik í málinu.

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari í Marple-málinu svokallaða, fer fram á öllum ákærðu í málinu verði gerð refsing, en við málflutning var sérstaklega tiltekið að horft yrði til hegningarauka fyrir þá Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrum forstjóra Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, sem áður hafa hlotið dóma fyrir Al-thani málið í Hæstarétti og Hreiðar Már í héraðsdómi fyrir markaðsmisnotkunarmál Kaupþings í ár.

Hreiðar og Magnús áður dæmdir

Hreiðar var í Al-thani málinu dæmdur í 5,5 ára fangelsi auk þess sem hann var sakfelldur í markaðsmisnotkunarmálinu. Saksóknari sagði að það hafi verið hegningarauki, þótt ekki hafi verið bætt við fangelsisdóm. Magnús var aftur á móti dæmdur í 4,5 ára fangelsi í Al-thani málinu, en sýknaður i markaðsmisnotkunarmálinu.

Þá sagði saksóknari að horfa þyrfti til þess að fá eða engin fordæmi væru fyrir svo umfangsmiklu máli um fjárdrátt og umboðssvik, en í heild er ákært fyrir meira en 8 milljarða fjármunafærslur.

Tekið mið af sögu Guðnýjar og Skúla

Auk Hreiðars Más og Magnúsar er Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans, ákærð í málinu fyrir umboðssvik og fjárdrátt. Tók saksóknari fram við dómara að horfa þyrfti til þess að hún væri með hreint sakavottorð og þá þyrfti að taka mið af þátttöku og stöðu hvers og eins við ákvörðun refsingar ef dómurinn kemst að sekt ákærðu.

Skúli Þorvaldsson, fjárfestir, er ákærður í málinu fyrir hylmingu og peningaþvott. Saksóknari tók einnig fram að hann væri með hreint sakavottorð og taka þyrfti mið af því.

„Umfangsmikið net“ félaganna

Upptöku er krafist á eignum fjölda félaga hans, auk Marple, sem saksóknari segir að hann hafi verið eigandi að. Bað saksóknari dómara um að horfa í gegnum „umfangsmikið net“ félaganna, enda hafi fjármunir farið á milli félaganna og horfa þurfi til jafnvirði þess ávinnings sem ákært er fyrir í málinu.

Sagði saksóknari að óháð því hvort að Skúli hafi átt fjármunina í gegnum félögin eða sjálfur, þá hafi hann verið sá sem myndi nýta hagnaðinn ef til kæmi. Systir Skúla er hlutaeigandi að tveimur félögum sem hefur verið krafist upptöku eigna hjá og sagði saksóknari að þrátt fyrir það þyrfti að horfa til þess að eignir félaganna séu ekki sundurgreinanlegar og að ekki hafi verið krafist upptöku eigna félaganna utan þeirra reikninga sem millifært hefði verið á. Benti saksóknari á að Katrín hefði sem vitni sagt að ekki væru frekari eignir í félögunum, en að samkvæmt gögnum saksóknara ættu félögin eignir víðar.

Magnús Guðmundsson
Magnús Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert