Of fráleitt til að móðgast

Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður Pírata.

Samlíking bloggarans Páls Vilhjálmssonar á Pírötum annars vegar og nasistum hins vegar eru svo fráleit að það tekur því ekki að móðgast yfir henni, segir Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður Pírata. Páll tengir kall Pírata eftir þjóðaratkvæðagreiðslum við uppgang nasista í Þýskalandi í nýrri bloggfærslu.

Í færslunni sem ber titilinn „Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar og hinn hrái þjóðarvilji“ heldur Páll því fram að Píratar séu ekki með nein stefnumál önnur en að vísa öllum helstu málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir séu „uppreisnarafl gegn málefnum“ og flokkur „hins hráa þjóðarvilja“.

„Í pólitískum annálum vesturlanda er ákall um hráan þjóðarvilja fylgifiskur upplausnarástands. [...] Eftir hrun þýska keisaradæmisins kom til sögunnar austurríkisfæddur liðþjálfi og boðaði ,,ein Volk, ein Reich". Píratar geta leyft sér ákall til þjóðarvilja vegna þess að þeir eru pólitískt hreinir sveinar. Alveg eins og Dolli í Bæjaralandi eftir fyrra stríð,“ skrifar Páll og vísar til Adolfs Hitler.

Ber saman algerar andstæður

Helgi Hrafn segir samlíkinguna kjánalega hjá Páli en fyrri færslur hans hafa margsinnis verið teknar upp í Staksteinum Morgunblaðsins.

„Að þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði í stjórnarskrá hafi einhvern veginn komið fasismanum á koppinn. Þetta er svo fráleitt að það tekur því ekki vera móðgaður yfir þessu,“ segir hann.

Að því sögðu segir Helgi Hrafn að fólk verði að geta vitnað í söguna og verstu kafla hennar þegar það gagnrýni eitthvað annað til þess að sagan endurtaki sig ekki.

„En að bera saman ákall um lýðræðisumbætur við fasisma finnst mér vera að bera saman eitthvað sem er í reynd algerar andstæður,“ segir hann.

Þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði þjóðarinnar sjálfrar

Þá vísar Helgi Hrafn því á bug að Píratar hafi engin stefnumál önnur en að vísa málum til þjóðarinnar. Það sé einfaldlega rangt og Páll geti kynnt sér þau á vefsíðu flokksins. Flokkurinn hafi lagt fram ýmis þingmál og ávallt talað fyrir lýðræðisumbótum í víðum skilningi og borgararéttindum sem séu mótvægi við það sem Páll meini væntanlega með „hráu lýðræði“.

„Þetta ætti að vera augljóst og maður hefði haldið að það væri augljóst af okkar málflutningi. Ég veit ekki hvernig þetta hefur farið fram hjá Páli,“ segir hann.

Hins vegar segir Helgi Hrafn einn sannleikspunkt í færslu Páls. Hann geri ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarviljinn yrði aðeins virkjaður að frumkvæði yfirvalda. Það væri Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar, eða í hans dæmi, Adolf Hitler, sem ákvæðu hvað færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Okkar áhersla hefur alltaf verið sú að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að koma að frumkvæði þjóðarinnar sjálfrar. Það er ennfremur sú gagnrýni sem við höfum lagt fram gegn málskotsrétti forseta. Ástæðan fyrir því að við teljum það vald mjög óeðlilegt og ólýðræðislegt er að það er ófyrirsjáanlegt og ekki að frumkvæði þjóðarinnar. Þetta er lykilatrið sem er alveg þess virði að ræða. Það er misskilningur hjá honum að einhver einræðisherra eða flokkur ákveði hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, það er þjóðin sem á að gera það,“ segir Helgi Hrafn.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að sjálfsögðu að vera takmarkaðar innan ramma nútímamannréttinda.

Færsla Páls Vilhjálmssonar þar sem hann líkir Pírötum saman við nasista

Páll Vilhjálmsson, bloggari.
Páll Vilhjálmsson, bloggari.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert