„Ég komst í gegnum greiðslumatið en ég komst varla í gegnum það. Skjöl sem urðu til þarna voru flest algerlega gagnslaus. En ég komst í gegnum þetta með miklum erfiðismunum og hef bara verið mjög hugsi yfir framkvæmd þessara laga um neytendalán. Ég held að þessi löggjöf sé farin að verka gegn lántakendum.“
Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en samflokksmaður hans Guðlaugur Þór Þórðarson sagði á Alþingi í dag að hann þekkti dæmi um þingmann sem ekki hefði komist í gegnum greiðslumat. Þar mun hann hafa átt við Vilhjálm. Vilhjálmur segir málið hafa verið fáránlegt. Hann hafi ekki skuldað krónu en engu að síður hafi gengið illa að komast í gegnum matið.
Þannig hafi verið skráð á hann yfirdráttarheimild sem hann hafi ekki verið að nota. Engu að síður hafi verið gert ráð fyrir því að næstu þrjá mánuði myndi hann greiða 170 þúsund krónur af heimild sem ekki væri í notkun. „Ég held að það sé fyrir það fyrsta verið að gera einfalda hluti mjög flókna. Það er verið að kosta miklu meira til. Ég komst í gegnum þetta en þetta vakti mikla furðu mína.“
Spurður hvort endurskoða þurfi löggjöfina að hans mati tekur hann undir það sem og framkvæmdina á henni. Margt í löggjöfinni sé mjög stíft hvað þetta varði og nánast sé eins og verið sé að framkvæma greiðslumat á fólki eins og stórum fyrirtækjum.