Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun að setja fimmtíu milljónir króna strax í kostnað vegna umsókna um hæli á Íslandi. Er það gert til þess að auka skilvirkni í kerfinu hér á landi.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, segir að peningarnir verði nýttir til þess að ráða fleira fólk til Útlendingarstofnunar og til að mæta þeim kostnaði sem meðal annars fylgir hælisleitendum sem þegar eru komnir til landsins.
Ljóst sé að hælisleitendum eigi eftir fjölga enn frekar nú í september og október ef marka má þá aukningu sem varð í ágúst.
Fjölmargir hælisleitendur eru enn á landinu, meðal annars Albanar sem væntanlega verða sendir úr landi, og útvega þarf þeim húsnæði á meðan þeir dvelja hér.
Eins og fram kom fyrr í vikunni þá sóttu 154 um hæli á Íslandi á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. ágúst 2015. Er það 66% aukning miðað við sama tíma árið 2014 en þá höfðu 93 sótt um hæli. Allt útlit er fyrir að árið 2015 verði metár í hælisumsóknum á Íslandi.
Í ágúst sóttu 49 manns um hæli á Íslandi en það eru jafnmargir og sóttu um samtals síðustu þrjá mánuðina á undan. Til að setja töluna í samhengi þá sóttu alls 35 manns um hæli á Íslandi árið 2009.
„Umsækjendur eru af samtals 32 þjóðernum auk þess sem einn umsækjandi er ríkisfangslaus. Albanir eru langfjölmennastir og telja 51 umsækjanda, rétt tæplega þriðjung allra umsókna. Í ljósi borgarastyrjaldarinnar sem geisað hefur í Sýrlandi síðan árið 2011 þarf ekki að undrast að Sýrlendingar eru næstfjölmennasta þjóðernið meðal umsækjenda. Þeir eru átján talsins eða 12% allra umsókna,“ segir á vef Útlendingastofnunar.
Fjárlög gera ráð fyrir 175 milljón króna hækkun
Gert er ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga að rekstrargjöld vegna hælisleitenda hækki um 172,7 milljónir króna frá fjárlögum yfirstandandi árs. Í fjárlögum 2016 er gerð tillaga um tímabundna 175 milljóna króna hækkun framlags í eitt ár til að mæta auknum kostnaði vegna fjölgunar hælisleitenda.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að áætlanir um styttri málsmeðferðartíma hafi ekki gengið eins vel eftir og ráð var fyrir gert og því er einnig þörf á þessu tímabundna framlagi.
Kostnaður fjárlagaliðarins hefur aukist verulega síðustu árin, frá því að vera 60 milljónir króna árið 2011 í 463 milljónir árið 2014.
Vísað er til þess að í samræmi við alþjóðasáttmála hvíli ófrávíkjanleg skylda á íslenska ríkinu að halda uppi hælisleitendum á meðan á meðferð umsóknar stendur.
Biðtími hælisleitenda lengist
Þá segir að íslensk stjórnvöld hafi á síðustu árum unnið að því að hámarka skilvirkni og gæði innan hæliskerfisins hér á landi og vísað er til þess að síðastliðið vor samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem lið í þessu. Þar var m.a. ný kærunefnd lögfest en hún tók til starfa sl. áramót.
Í frumvarpinu segir að tímabundnir erfiðleikar í málsmeðferð hælisleitenda hafi komið upp sem valda því að biðtími hælisleitenda eftir niðurstöðu hefur lengst á ný auk þess sem fjöldi hælisleitenda haldi áfram að aukast. Taka mun lengri tíma en áætlað var að ná markmiðum um afgreiðslutíma hælismála.
Dvalargjöld hælisleitanda, sem ekki fær úrlausn sinna mála, er 7.800 krónur á dag, 234.000 krónur á mánuði og 2.808.000 krónur á ári.