Grípa strax til aðgerða

Fastlega er gert ráð fyrir að hælisumsóknum muni fjölga verulega …
Fastlega er gert ráð fyrir að hælisumsóknum muni fjölga verulega hér á landi á næstu mánuðum. AFP

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun að setja fimmtíu milljónir króna strax í kostnað vegna umsókna um hæli á Íslandi. Er það gert til þess að auka skilvirkni í kerfinu hér á landi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, segir að peningarnir verði nýttir til þess að ráða fleira fólk til Útlendingarstofnunar og til að mæta þeim kostnaði sem meðal annars fylgir hælisleitendum sem þegar eru komnir til landsins. 

Ljóst sé að hælisleitendum eigi eftir fjölga enn frekar nú í september og október ef marka má þá aukningu sem varð í ágúst. 

Fjölmargir hælisleitendur eru enn á landinu, meðal annars Albanar sem væntanlega verða sendir úr landi, og útvega þarf þeim húsnæði á meðan þeir dvelja hér.

Eins og fram kom fyrr í vikunni þá sóttu 154 um hæli á Íslandi á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. ágúst 2015. Er það 66% aukning miðað við sama tíma árið 2014 en þá höfðu 93 sótt um hæli. Allt útlit er fyrir að árið 2015 verði metár í hælisumsóknum á Íslandi.

Í ágúst sóttu 49 manns um hæli á Íslandi en það eru jafnmargir og sóttu um samtals síðustu þrjá mánuðina á undan. Til að setja töluna í samhengi þá sóttu alls 35 manns um hæli á Íslandi árið 2009.

„Umsækjendur eru af samtals 32 þjóðernum auk þess sem einn umsækjandi er ríkisfangslaus. Albanir eru langfjölmennastir og telja 51 umsækjanda, rétt tæplega þriðjung allra umsókna. Í ljósi borgarastyrjaldarinnar sem geisað hefur í Sýrlandi síðan árið 2011 þarf ekki að undrast að Sýrlendingar eru næstfjölmennasta þjóðernið meðal umsækjenda. Þeir eru átján talsins eða 12% allra umsókna,“ segir á vef Útlendingastofnunar.

Fjárlög gera ráð fyrir 175 milljón króna hækkun

Gert er ráð fyr­ir því í frumvarpi til fjárlaga að rekstr­ar­gjöld vegna hæl­is­leit­enda hækki um 172,7 millj­ón­ir króna frá fjár­lög­um yf­ir­stand­andi árs. Í fjár­lög­um 2016 er gerð til­laga um tíma­bundna 175 millj­óna króna hækk­un fram­lags í eitt ár til að mæta aukn­um kostnaði vegna fjölg­un­ar hæl­is­leit­enda.

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu seg­ir að áætlan­ir um styttri málsmeðferðar­tíma hafi ekki gengið eins vel eft­ir og ráð var fyr­ir gert og því er einnig þörf á þessu tíma­bundna fram­lagi.

Kostnaður fjár­lagaliðar­ins hef­ur auk­ist veru­lega síðustu árin, frá því að vera 60 millj­ón­ir króna árið 2011 í 463 millj­ón­ir árið 2014.

Í frum­varp­inu seg­ir að von­ir hafi staðið til þess að átaks­verk­efni und­an­far­inna ára leiddi til um­tals­verðrar lækk­un­ar liðar­ins á yf­ir­stand­andi ári og voru fjár­veit­ing­ar því lækkaðar í 285 millj­ón­ir króna. „Það er ekki að ganga eft­ir,“ seg­ir í frum­varp­inu.

Vísað er til þess að í sam­ræmi við alþjóðasátt­mála hvíli ófrá­víkj­an­leg skylda á ís­lenska rík­inu að halda uppi hæl­is­leit­end­um á meðan á meðferð um­sókn­ar stend­ur.

Biðtími hælisleitenda lengist

Þá seg­ir að ís­lensk stjórn­völd hafi á síðustu árum unnið að því að há­marka skil­virkni og gæði inn­an hælis­kerf­is­ins hér á landi og vísað er til þess að síðastliðið vor samþykkti Alþingi frum­varp til laga um breyt­ingu á lög­um um út­lend­inga sem lið í þessu. Þar var m.a. ný kær­u­nefnd lög­fest en hún tók til starfa sl. ára­mót.

Í frum­varp­inu seg­ir að tíma­bundn­ir erfiðleik­ar í málsmeðferð hæl­is­leit­enda hafi komið upp sem valda því að biðtími hæl­is­leit­enda eft­ir niður­stöðu hef­ur lengst á ný auk þess sem fjöldi hæl­is­leit­enda haldi áfram að aukast. Taka mun lengri tíma en áætlað var að ná mark­miðum um af­greiðslu­tíma hæl­is­mála.

Dval­ar­gjöld hæl­is­leit­anda, sem ekki fær úr­lausn sinna mála, er 7.800 krón­ur á dag, 234.000 krón­ur á mánuði og 2.808.000 krón­ur á ári.

Aukin útgjöld vegna hælisleitenda

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka