Minjastofnun Íslands skyndifriðaði hafnargarðinn við Austurhöfn sem grafinn hefur verið upp. Reykjavíkurborg mótmælir ákvörðuninni harðlega og vill að hún verði tekin til baka þar sem borgaryfirvöld hafi ekki gefist kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Ákvörðun var tekin um að beita ákvæði laga og menningarminjar um skyndifriðun vegna hafnargarðsins á miðvikudag. Hún þýðir að ekki er heimilt að rífa garðinn þar til mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur tekið afstöðu til tillögu stofnunarinnar um friðun hans. Borgarlögmaður hefur sent stofnuninni bréf þar sem ákvörðuninni er harðlega mótmælt á þeim forsendum að andmælaréttur borgarinnar hafi verið virtur að vettugi.
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, segir að stofnunin hafi lagaheimild til að beita skyndifriðun án samráðs við hlutaðeigandi. Í framhaldinu hefjist friðlýsingarferli þar sem hlutaðeigandi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Þróunarfélagið Landstólpi hefur undirbúið framkvæmdir við verslunar- og íbúðarhúsnæði á Austurbakka og kom hafnargarðurinn þá í ljós. Hann var byggður á fyrri hluta síðustu aldar en fór undir landfyllingu árið 1939.
Fyrri frétt mbl.is: Hafnargarðurinn verði varðveittur