Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segir 25 sveitarfélög hafa formlega óskað eftir viðræðum um að bjóða fram krafta sína til að taka á móti flóttafólki eða aðstoða með einhverjum hætti við móttöku flóttafólks. „Þau eru mjög misjöfn að stærð, allt frá því stærsta niður í þau minnstu,“ segir Eygló.
„Það er því mjög mismunandi hvað þau geta gert, og dæmi um að sveitarfélög skoði að vinna saman að móttöku flóttafólks. Næstu skref eru að fara í viðræður við sveitarfélögin til að við getum áttað okkur á hvað hvert sveitarfélag er tilbúið að gera,“ segir Eygló. Hún leggur mikla áherslu á að vandað sé til verka við móttöku flóttafólks til Íslands.
Hún segir skipta máli hvað sveitarfélögin geti gert svo að hægt sé að átta sig á hversu mörgum flóttamönnum Ísland geti tekið á móti. „Víða er uppi húsnæðisskortur, sem hefur gert það að verkum að það hefur lengri tíma að koma fólki fyrir. Við þurfum líka að horfa til hvaða stoðþjónustu sveitarfélögin geta boðið upp á og hvernig væri þá hægt að styðja þau.“
Eygló segir að þar að auki hafi sveitarfélög boðið fram þjónustu sína við ráðgjöf, sveitarfélög sem hafi mikla og víðtæka reynslu af móttöku flóttamanna og sinni nú þegar stórum verkefnum flóttamanna. Hún segir mikinn áhuga á verkefninu hafa skinið í gegn í öllum viðræðum við sveitarfélög.
Hún vildi ekki tjá sig með beinum hætti um hvort hægt væri að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum en þeim 50 sem hafa verið í umræðinni undanfarið. „Við erum einfaldlega að fara yfir þetta,“ sagði Eygló. „Það á eftir að skýrast. Við höfum líka verið að horfa á hvaða hópar það eru sem við gætum tekið á móti og kynnt okkur það sem snýr að móttöku flóttabarna og unglinga og aflað okkur upplýsinga bæði frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og líka leitað ráða hjá undirstofnunum minna ráðuneyta eins og Barnaverndarstofu um hvernig væri best að standa að svoleiðis verkefni.“
Eygló segir Flóttamannastofnun SÞ leggja mikla áherslu á að koma flóttabörnum fyrir hjá ættingjum ef þau komi fylgdarlaus. Sálpuð börn séu í fleiri tilvikum á flótta en mjög ung börn, því það sé líklegra að ættingjar taki yngri börnin að sér. „Við erum að fara yfir það og líka hvernig væri best að standa að því, meðal annars með því að horfa á reynslu annarra Norðurlandaþjóða sem hafa tekið á móti fylgdarlausum börnum.“ Þar sé sama áherslan, að vandað sé til verka og hugað að hverjum og einum einstaklingi.
Eygló segir þegar blaðamaður innir erfir svörum um hvernig henni þyki umræðan um flóttafólk hafa verið hér á landi að mjög skýr vilji hafi komið fram um að „við viljum gera okkar. Við viljum hins vegar líka standa vel að verki. Við erum að horfa bæði á hvað við getum gert hér heima en líka hvað við getum gert í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir og í þeim löndum sem eru næst Sýrlandi,“ segir Eygló. „Auðviðtað er það þannig að við erum lítil þjóð þannig að okkar framlag er kannski ekki stórt í heildarsamhengi hlutanna. Ég held hins vegar að við séum öll sammála um að við eigum að leggja okkar fram.“
Hún segir ekki ljóst hvenær viðræðum við sveitarfélögin ljúki - það verði að skýrast á næstunni. „Ég geri ráð fyrir að það verði aftur haldinn fundur í ráðherranefnd um flóttamannamálin.“ Eygló segir nefndina vera mikilvægan samráðsvettvang til að hægt sé að fjalla heildstætt um málefni flóttafólks, því þrjú ráðuneyti koma með einum eða öðrum hætti að málefnum flóttamanna. „Ráðherranefndin er hugsuð svo við náum yfirsýn yfir verkefnið,“ sagði Eygló. „Þetta er stórt verkefni og við erum með velferð fólks undir og reynum auðvitað líka að leggja okkar fram erlendis eins og við getum.“
Svokallaðir kvótaflóttamenn eru á hendi félagsmálaráðuneytisins en málaflokkur hælisleitenda heyrir undir Útlendingastofnun, sem svo aftur heyrir undir innanríkisráðuneytið. Þegar hælisleitanda hefur verið veitt hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á fólk svo rétt á að fá sína nánustu til sín í gegnum það sem nefnist fjölskyldusameining. Þegar fólki hefur verið veitt umrætt hæli eða dvalarleyfi tekur tiltekið sveitarfélag við fólkinu, en velferðarráðuneytið endurgreiðir sveitarfélögunum hluta af framfærslukostnaði fólksins ef það er ófært um að framfleyta sér fyrstu tvö árin eftir að því hefur verið veitt hæli eða dvalarleyfi.
Því til viðbótar kemur utanríkisráðuneytið að málefnum flóttamanna því fyrst eftir að fólk fær hér hæli, dvalarleyfi eða kemur inn sem kvótaflóttamaður þá flokkast það sem þróunaraðstoð. Utanríkisráðuneytið heldur auk þess utan um öll samskipti við alþjóðastofnanir, meðal annars þær sem sinna aðstoð á stríðshrjáðum svæðum og við flóttafólk úti í heimi.